Erlent

Mogens Glistrup allur

Mogens Glistrup, stofnandi hins danska Framfaraflokks, lést í gærkvöld, 82 ára gamall. Glistrup var með umdeildari stjórmálamönnum Danmerkur, bæði fyrir skoðanir sínar í innflytjendamálum og vegna skattsvika sem hann var dæmdur fyrir.

Glistrup hlaut dóm árið 1983 fyrir svikin en opinská ummæli hans um glufur í danska skattkerfinu leiddu til þess að hann var dæmdur. Einna frægust eru ummæli hans frá árinu 1971 þar sem hann líkti skattsvikurum við félaga í andspyrnuhreyfingunni dönsku á tímum hernáms Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni.

Þá var vakti hann mikla reiði Danmörku fyrir þau ummæli að múslímar kæmu sér fyrir í Danmörku eins og rottur. Hann hefur einnig hlotið dóma fyrir slík ummæli um útlendinga og innflytjendur í Danmörku.

Pia Kjærsgaard, leiðtogi Danska þjóðarflokksins og fyrrverandi flokkssystir Glistrups, segir í samtali við Jótlandspóstinn að Danir geti þakkað Glistrup margt. Hann hafi greint vandamál samtímans og vakið nauðsynlegar umræður í landinu. „Umdeildur stíll hans skyggði því miður oft á innihaldið en ég held að sagan muni dæma hann sem frumkvöðulinn Mogens Glistrup," segir Kjærsgaard.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×