Sport

Manaudou íhugar framtíð sína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manaudou var svekkt eftir baksundið í nótt.
Manaudou var svekkt eftir baksundið í nótt. Nordic Photos / AFP

Franska sunddrottningin Laure Manaudou íhugar nú hvort hún eigi að hætta keppni í sundi en hún hefur þótt valda vonbrigðum á Ólympíuleikunum í Peking.

Manadou vann til gull-, silfur- og bronsverðlauna í Aþenu en hefur til þessa keppt í tveimur greinum og ekki komist á verðlaunapall.

Hún varð í sjöunda sæti í 100 metra baksundi í nótt og í áttunda og síðasta sæti úrslitasundsins í 400 metra skriðsundi í gær.

Hún er fyrrum heimsmetshafi í fyrrnefndu greininni og núverandi heimsmetshafi í 200 metra skriðsundi. Hún var hins vegar ekki skráð til keppni í greininni og keppti ekki í undanrásunum.

„Þetta er virkilega svekkjandi," sagði Manaudou. „Ég veit ekki hvort það er þess virði að halda áfram. Ég hef engan vilja til að synda lengur. Aðeins fjölskylda mín hefur trú á mér núna."

Hún viðurkenndi að hafa gefist upp í skriðsundinu í gær. „Ég gafst upp því það er enginn munur á fimmta eða áttunda sæti. Ég gat bara ekki haldið í við hina."

Hennar eini möguleiki til að vinna til verðlauna í Peking er í 200 metra baksundi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×