Sport

Pistorius vann gull í Peking

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oscar Pistorius með gullið sitt í dag.
Oscar Pistorius með gullið sitt í dag. Nordic Photos / Getty Images

Suður-Afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius vann í dag til gullverðlauna í 100 metra spretthlaupi karla á dramatískan hátt. Pistorius keppir í fötlunarflokki T44 á Ólympíumóti fatlaðra í Peking.

Hann og Bandaríkjamaðurinn Jonathan Singleton hafði forystuna í hlaupinu lengst af en Pistorius náði að stinga sér fram úr við endalínuna.

Það ringdi mikið í Peking í dag sem gerði hlaupurum erfitt fyrir. Hann keppir einnig í 200 og 400 metra hlaupi sem eru hans sterkustu greinar.

Pistorius notast við gervifætur frá stoðtækjafyrirtækinu Össuri og komst í heimsfréttirnar í sumar er hann vann mál fyrir áfrýjunardómstóli sem gaf honum þátttökurétt á Ólympíuleikunum. Hins vegar náði hann ekki lágmarki í 400 metra hlaupi eins og hann stefndi að.

Hann stefnir þó að því að keppa á leikunum í Lundúnum eftir fjögur ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×