Innlent

Spyrja hvort Guðmundur Þóroddsson sæti pólitískri ábyrgð

Sigrún Elsa Smáradóttir.
Sigrún Elsa Smáradóttir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboð spyrja sig hvort fulltrúar sjálfstæðismanna í Orkuveitu Reykjavíkur séu að láta starfsmann Orkuveitunnar axla ábyrgð á eigin mistökum og innanflokksátökum. Samkomulag var gert við Guðmund Þóroddsson um að hann sneri ekki aftur til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hann hefur verið í leyfi frá starfi forstjóra vegna starfa sinna hjá Reykjavík Energy Invest.

„Það er náttúrulega bara verið að láta manninn fara og við höfum ekki fengið neinar haldbærar skýringar á því. Nema að það tengist þeim uppákomum sem hafa verið hjá REI," segir Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR. Máli sínu til útskýringar vísar hún til bókunar sinnar og Svandísar Svavarsdóttur, fulltrúa VG í stjórninni, þar sem kemur fram að þegar málefni REI komust fyrst í hámæli hafi Guðmundur Þóroddsson verið að vinna í fullu umboði þáverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Einnig megi gera ráð fyrir því að hann hafi starfað í fullu umboði núverandi stjórnar meðal annars þegar formaður stjórnar REI í félagi við varaformann undirritaði samninga í Djibouti og Yemen. Í báðum þessum tilvikum hafi pólitískt kjörnir fulltúar reynst umboðslausir gagnvart borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Það sé því ljóst að þá árekstra sem ítrekað hafi komið upp í málefnum REI, megi rekja til innanflokksátaka í Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.

Sigrún segir að þar sem gert hafi verið samkomulag við Guðmund Þóroddsson telji hún að það hefði ekki haft neitt upp á sig að greiða atkvæði gegn því í stjórninni. Því hafi hún ákveðið að sitja hjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×