Innlent

Mikið álag á farsímakerfi

Alls voru GSM símtöl hjá Vodafone um 260 þúsund talsins á fyrstu klukkustundinni eftir skjálftann. Álagið á GSM kerfið minnkaði eftir því sem leið á daginn og var notkunin að mestu komin í eðlilegt horf um kl. 19. GSM samband hélst á öllu skjálftasvæðinu, en tímabundnar truflanir á rekstri fáeinna senda ollu skertu GSM sambandi innanhúss um stund. Tímabundnar truflanir urðu hins vegar á fastlínuþjónustu á Selfossi, vegna rofs á ljósleiðara hjá Mílu hf. en viðgerð á honum gekk vel og var ljósleiðarinn komin í gagnið um kl. 20:30 í gær.

Álagið á GSM kerfið var mest á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega á svæðum þar sem fjölmenn atvinnustarfsemi fer fram. Á landsbyggðinni var álagið á GSM kerfi Vodafone fimmfalt meira en vanalega á þessum tíma dags og í Reykjavík ríflega tvöfaldaðist álagið.

Hjá Símanum fengust þær upplýsingar að álagið í GSM kerfið á jarðskjálftasvæðinu hafi tvöfaldast á fyrsta klukkutímanum eftir skjálftann. Sagði Linda Björk Waage, forstöðumaður samskiptasviðs Símans, að skapast hafi svipað álag á skjálftasvæðinu eins og gerist um áramót. Einhverjar frávísanir urðu í kerfum Símans fyrsta klukkutímann eftir skjálftann en kerfið jafnaði sig fljótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×