Innlent

Kvótakerfið verður fært í átt að áliti SÞ

Á sjó Breytingar á kvótakerfinu eru í farvatninu, að sögn sjávarútvegsráðherra.
fréttablaðið/hari
Á sjó Breytingar á kvótakerfinu eru í farvatninu, að sögn sjávarútvegsráðherra. fréttablaðið/hari

Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið verður lagað að áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá í haust.

Álitið kveður á um að kerfið stangist á við jafnræðisreglur.

Einar K. Guðfinnsson, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ákvæði stjórnarsáttmálans um sérstaka athugun á reynslunni af kerfinu og áhrifum þess á þróun byggða verði útvíkkað. Við verkið verði jafnframt horft til álits mannréttindanefndarinnar auk stjórnarskrár Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu og þeirra dóma sem fallið hafa um kerfið.

„Við ætlum okkur að vera með kerfi sem stenst þessa skoðun,“ sagði Einar í samtali við Fréttablaðið eftir umræðu á Alþingi í gær um viðbrögð stjórnvalda við áliti nefndarinnar.

Hann lagði áherslu á að hugsanlegar breytingar yrðu að samrýmast hagsmunum sjávarútvegsins sem atvinnugreinar.

Einar er þögull um hverjar breytingarnar kunni að verða og vill fátt segja um hvaða tímaramma stjórnvöld setja sér til verksins. Hann kveðst þó telja víst að breytingarnar komi fram á kjörtímabilinu.

Áhöld eru uppi um hvernig túlka beri álit mannréttindanefndarinnar og er Einar í þeim hópi manna sem telja álitið óskýrt. „Það er gallinn við það og af þeim ástæðum tel ég að það beri að túlka niður­stöðuna mjög þröngt.“

Í máli Einars í umræðunni kom fram að íslenska ríkið teldi ekki forsendur til að greiddar yrðu skaðabætur til þeirra tveggja manna sem á sínum tíma fóru með málið fyrir mannréttindanefndina.bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×