Innlent

Kraftaverkin gerast enn

Frá Selfossi.
Frá Selfossi.

Þrátt fyrir að meirihluti frétta frá Suðurlandi undanfarinn sólarhring hafi verið fremur neikvæðar má einnig finna jákvæðar fréttir. Þannig hefur Vísi borist fregnir af heimili Hrafnhildar Ingibergsdóttur við Grundartjörn á Selfossi sem varð ekki fyrir einu einasta hnjaski í jarðskjálftanum. Þegar skjálftinn fór af stað hafði Hrafnhildur fimm mánaða gamlan son sinn í fanginu sem hún flýtti sér með út ásamt eldri syni sínum sem er fimm ára.

Rúmlega hálftíma eftir skjálftann þorði Hrafnhildur loks inn á heimili sitt aftur og kom þá í ljós að ekkert hafði hrunið úr hillunum og engar skemmdir orðið. „Eina sem ég fann voru tvær kremdollur sem höfðu dottið úr baðskápnum og þær brotnuðu ekki einu sinni," segir Hrafnhildur örlítið undrandi. Hún segir það kraftaverki líkast að ekkert annað hafi steypst á gólfið og nefnir sem dæmi að dóttir hennar eigi fullan skáp af styttum sem hreyfðu hvorki legg né lið.

Hrafnhildur segist ekki vita til þess að að önnur hús á Selfossi hafi sloppið eins vel og hennar. Aðrir nánustu nágrannar Hrafnhildar urðu hins vegar fyrir töluverðu tjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×