Innlent

Verulega ósáttir við aðstöðuleysi siglingafélags

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Bráðabirgðaaðstaða Ýmis í Kópavogi.
Bráðabirgðaaðstaða Ýmis í Kópavogi. MYND/Baldvin Björgvinsson

Forsvarsmenn Siglingafélagsins Ýmis í Kópavogi kveðast verulega óánægðir með að Kópavogsbær hafi svikið félagið um bráðabirgðaaðstöðu sem því hafi verið lofað þar til framkvæmdum lýkur við nýja aðstöðu félagsins Fossvogsmegin í Kópavoginum en hennar hefur verið beðið í sjö ár.

Í frétt á heimasíðu Brokeyjar, siglingafélags Reykjavíkur, er nágrönnum í bryggjuhverfi Kópavogs kennt um að hafa beitt bæjaryfirvöld Kópavogs þrýstingi til að losna við starfsemi Ýmis úr nágrenni sínu.

Er það orðað svo á síðunni: „Nú í dag var verið að koma fyrir bráðabirgðaaðsöðu fyrir barna og unglingastarfið í gámum við Kópavogshöfn og þá brjáluðust nágrannarnir. Þeir eru svo sem þekktir þeir sem búa á hafnarsvæðinu í verbúðunum við hliðina á Eininga- og steypustöðinni Borg. Síðast var það sementsryk, nú eru þeir brjálaðir yfir því að siglingaklúbburinn, mengunarlaus með öllu, sé þarna til bráðabirgða."

Sigurður Ragnarsson hjá Ými segir að eftir hádegið í dag muni Kópavogsbær fjarlægja gáma sem félagið hafi komið fyrir til nota við starfsemina í sumar og minnka alla aðstöðu félagsins verulega. „Þetta er út af ólgu í fólkinu sem býr þarna í bryggjuhverfinu. Sumir þar eru mjög almennilegir en aðrir alls ekki," segir Sigurður.

Hann segir skóflustungu að nýju aðstöðunni í Vesturvör verða tekna 6. janúar og teikningar séu langt komnar. Sú aðstaða verði því ekki tilbúin nærri því strax. Sigurður segist ekki hafa náð sambandi við Gunnar Birgisson bæjarstjóra en eigi pantað viðtal við hann á mánudagsmorgun. Aðstöðuleysið komi til dæmis niður á barnastarfi siglingafélagsins sem sé bagalegt.

Vísir á von á að heyra frá forsvarsmönnum Kópavogsbæjar á hverri stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×