Innlent

Húðflúrstofa Ragnars fór í rúst

Ragnar Hauksson segir skjálftann hafa valdið mikilli skelfingu.
Ragnar Hauksson segir skjálftann hafa valdið mikilli skelfingu.

Það fór allt um koll á húðflúrstofu Ragnars Haukssonar á Selfossi í skjálftanum í gær. „Þetta er rosalega skrýtin tilfinning maður. Það er allt farið, bara eins og hendi væri veifað," sagði Ragnar í samtali við Vísi.

Ragnar segir að sem betur fer hafi enginn verið að láta húðflúra sig þegar stóri skjálftinn reið yfir. Hins vegar hafi verið kúnni hjá honum skömmu áður, þegar minni skjálftans varð vart. „Þetta var bara eins og stór valtari hefði ekið hérna um götuna á einhverjum ólöglegum hraða," segir Ragnar sem ætlar að opna stofuna aftur á mánudaginn.

Ragnar segir að mikil skelfing hafi gripið um sig við skjálftann. Foreldrar hafi orðið hræddir um börnin sín og flykkst í leikskólana til að sækja börnin sín.

Það var þó lán í óláni að heimili Ragnars á Stokkseyri stóð af sér skjálftann, en Ragnar þakkar það þeirri staðreynd að grunnurinn að húsinu hafi verið grafinn heila 5 metra ofan í jörðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×