Innlent

Fallið frá hugmyndum um Vestmannaeyjaferju í einkaframkvæmd

Kristján Möller samgönguráðherra
Kristján Möller samgönguráðherra

Ríkisstjórnin hefur að tillögu Kristjáns Möller samgönguráðherra ákveðið að falla frá hugmyndum um smíði Vestmannaeyjaferju í einkaframkvæmd. Í stað þess verði smíði ferju boðin út með hefðbundnum hætti og í framhaldi af því verði rekstur hennar boðinn út sérstaklega. Þetta segir í tilkynningu frá samgönguráðherra.

Í ágúst í fyrra fól samgönguráðherra Siglingastofnun Íslands að annast útboð í einkaframkvæmd á ferjusiglingum milli Vestmannaeyja og fyrirhugaðrar Landeyjahafnar í Rangárþingi eystra.

Fjórum aðilum var gefinn kostur á að bjóða í verkið að undangengnu forvali og bárust tilboð frá Samskipum hf. annars vegar og hins vegar sameiginlega frá Vinnslustöðinni hf. og Vestmannaeyjabæ (V&V). Tilboð Samskipa þótti ekki gilt og engin tilboð bárust sem þóttu viðunandi vegna kostnaðar, en almenn regla Siglingastofnunar er að taka ekki tilboðum sem eru 10% hærri en kostnaðaráætlun.

Því telur samgönguráðherra rétt að leggja á hilluna allar hugmyndir um einkaframkvæmd á Vestmannaeyjaferju þar sem telja megi aðstæður á lánamörkuðum þeirri aðferð mjög óhagstæðar um þessar mundir. Í stað þess verði Siglingastofnun Íslands falið að bjóða út smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju með hefðbundnum hætti í eiginframkvæmd ríkisins. Síðar verði rekstur ferjunnar boðinn út á sama hátt og gert hefur verið undanfarin ár.

Talið er að smíði nýrrar ferju taki um tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×