Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag bankanna hefur lækkað um 40 prósent

Skuldatryggingarálag íslensku bankanna hefur lækkað um 40 prósent frá því sem hæst var í lok mars. Á þetta er bent í hálffimmfréttum Kaupþings. Þar segir einnig að svipaða sögu megi segja um Itraxx-fjármálavísitöluna sem mælir álag á skuldatryggingar evópskra fjármálafyrirtækja og virðast íslensku bankarnir fylgja þeirri þróun. Sjálfstraust fjárfesta virðist því vera að aukast.

Seinni partinn í dag var skuldatryggingarálag á fimm ára bréf hjá Glitni og Kaupþingi 625 punktar. Hæst fór skuldatryggingarálagið hjá Kaupþingi í 1.050 punkta í lok mars og hefur það því lækkað um 425 punkta en álagið hjá Glitni hefur lækkað um 375 punkta á sama tíma. Álagið á sambærileg bréf hjá Landsbankanum var 375 punktar í dag og hefur lækkað um tæpa 400 punkta. Í dag hækkaði álagið hins vegar um 25 punkta innan dagsins hjá Glitni og Kaupþingi.

„Upp hafa sprottið umræður um hvort koma eigi á fót regluverki í kringum skuldatryggingarmarkaðinn og að uppgjörsmiðstöð (e. clearing house) sjái um frágang allra viðskiptanna. Þessar breytingar myndu tvímælalaust efla markaðinn og gera hann gegnsærri en í dag er markaðurinn mjög grunnur og sveiflukenndur. Greiningardeild gerir ráð fyrir að álagið muni lækka enn fremur á komandi vikum og að það endurspegli þá betur raunverulega áhættu sem liggur hjá bönkunum," segir enn fremur í hálffimmfréttum Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×