Erlent

Georgía segir skilið við samtök fyrrverandi Sovétlýðvelda

Míkhal Saakashvílí, forseti Georgíu, greindi frá því í dag að landið myndi segja sig úr samtökum sjálfstæðra ríkja sem eru samtök fyrrverandi Sovétlýðvelda.

Sagði hann ástæðuna þá að Rússar stjórnuðu samtökunum algjörlega og hvatti hann önnur fyrrverandi Sovétlýðveldi að fylgja fordæmi Georgíumanna. Þessar yfirlýsingar koma í kjölfar átaka Rússa og Georgíumanna vegna héraðsins Suður-Ossetíu.

Talið er að allt að 150 þúsund manns hafi safnast saman við þinghúsið í Tblisi, höfuðborg Georgíu, í dag þar sem Saakashvílí ávarpaði mannfjöldann. Fólk hrópaði slagorð gegn Rússslandi og sagði forsætisráðherrann Vladímír Pútín hryðjuverkamann. Saakashvílí kallaði enn fremur eftir því að alþjóðasamfélagið fordæmdi Rússa fyrir framferði sitt í Suður-Ossetíu og Georgíu.

Þótt fregnir hafi borist af því að Rússar hafi hætt hernaðaraðgerðum sínum í Georgíu virðist ástandið enn eldfimt og fregnir berast af átökum í öðru sjálfstjórnarhéraði í Georgíu, Abkasíu. Þar hefur slegið í brýnu með uppreisnarmönnum og her Georgíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×