Erlent

Reyna að lægja ótta fólks í Evrópu

Evrópskar ríkisstjórnir reyna nú í örvæntingu að lægja ótta þegna sinna vegna kreppunnar. Æ fleiri gefa loforð um að ábyrgjast innlán í bönkum en það virðist ekki duga.

Það er dálítið eins og kreppan hafi öðlast sitt eigið líf og að ekkert sem gert er sé nóg. „Við erum með alvarlega veikan markað sem er rekinn áfram af ótta" segir breskur fjármálasérfræðingur.

Síðan um miðjan september hafa ríkisstjórnir í Bandaríkjunum og víða í Evrópu þurft að grípa inní til þess annaðhvort að halda bönkum á floti með lánum eða ábyrgjast sparifé í einstökum bönkum.

Fram til þessa hafa ríkisstjórnir barist hver á sínum vígvelli. Nú virðist hugsanlegt að farið verði í samræmdar aðgerðir.

Næstkomandi föstudag munu sjö helstu iðnríki heims koma saman í Washington til þess að fara yfir stöðuna fyrir haustfund Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Vangaveltur eru um að þar verði tilkynnt um samræmda lækkun stýrivaxta til þess að milda lausafjárskortinn.

Þjóðverjar tilkynntu um helgina að ríkisstjórnin myndi ábyrgjast allt sparifé í öllum bönkum landsins, til þess að auka tiltrú á fjármálakerfið.

Nicolas Sarkozy forseti Frakklands las í dag sameiginlega yfirlýsingu frá Evrópusambandinu um að að leiðtogar allra ríkja sambandsins væru reiðubúnir að grípa til allra þeirra aðgerða sem þyrfti til að viðhalda efnahagslegu jafnvægi.

Í máli forsetans kom fram að allir leiðtoganir geri sér grein fyrir nauðsyn þess að þeir eigi með sér náið samstarf.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×