Innlent

Óvíst hvort að fleiri flugmönnum verði sagt upp

Flugvél Icelandair
Flugvél Icelandair MYND/VG

24 flugmönnum Icelandair var sagt upp fyrir helgi og að sögn Jóhannesar Bjarna Guðmundssonar, formanns Félags atvinnuflugmanna, þá ríkir óvissa um hvort uppsagnirnar verði fleiri og þá hversu margar. Í morgun var haldinn hefðbundinn mánaðarlegur fundur samstarfsnefndar FÍA og flugrekstrarstjóra Icelandair og flugdeildar félagsins. ,,Forsvarsmenn Icelandair gáfu ekki út á það hvort að uppsagnirnar verði fleiri. Það fer algjörlega eftir því hver staðan verður um næstu mánaðarmót. Ef þeim tekst ekki landa frekari verkefnum þá gæti stefnt í fleiri uppsagnir," sagði Jóhannes Bjarni í samtali við Vísi.

Jóhannes sagði flugmenn gera sér grein fyrir því að starfumhverfi þeirra sé oft á tíðum ótryggt þar sem miklar sveiflur eru í flugrekstri. Á fundinum í morgun ,,kom skýrt fram hjá Icelandair að félagið er í sóknarhug og vill komast hjá því að segja upp fleirum."

Þeir sem fengu send uppsagnarbréf hafa stystan starfsaldur hjá Icelandair. Félagsmenn FÍA eru rúmlega 600 og starfar ríflega helmingur þeirra hjá Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×