Innlent

Klárlega brot að auglýsa afslátt sem er ekki

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Neytendastofa hefur sett reglur um útsölur þar sem mun ítarlegar er tekið á þessu en í lögunum [nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins]," útskýrir Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu, spurð út í mál Bílalands sem Bílamarkaðurinn hefur sakað um brot á neytendalöggjöf og blekkingar gagnvart neytendum. Þórunn tók þó fram að henni væri ekki unnt að tjá sig um þessi fyrirtæki sérstaklega heldur gæti hún eingöngu gefið almennar vísbendingar um hvenær lög eða reglur væru brotin.

„Það er tekið alveg skýrt fram í lögunum að það má ekki auglýsa lækkað verð nema það sé raunverulega lækkað verð og varan hafi verið á fyrra verði. Við settum í reglurnar að varan þyrfti að vera seld á fyrra verði en eðli málsins samkvæmt geturðu ekki selt notaðan bíl á fyrra verði. Reglan er einfaldlega sú að þú auglýsir ekki afslátt sem er ekki, það er klárlega blekkjandi gagnvart neytendum. En við skoðum auðvitað hvert mál fyrir sig," segir Þórunn að lokum og bendir á að neytendur geti beint kvörtunum til Neytendastofu um einstök mál auk þess sem hún geti tekið mál upp að eigin frumkvæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×