Innlent

Langar að taka þátt í breytingum á HÍ

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir sótti um starf forseta hugvísindasviðs og félagsvísíndasviðs en umsóknarfrestur rann út í fyrradag. „Ég sæki um þetta starf því mig langar að taka þátt í þeim breytingum sem nú eru að verða á skólanum," segir Ólína og vísar til þeirra nýlegu breytinga sem gerðar hafa verið á stjórnskipulagi Háskóla Íslands.

Ólína er með doktorspróf í íslenskum bókmenntum frá heimspekideild Háskóla Íslands. Þar var hún með þjóðfræði sem sérsvið en á því sviði hefur hún að mestu kennt. Ólína starfar nú sem verkefnisráðinn sérfræðingur við stofnun fræðasetra Háskóla Íslands og er með vinnuaðsetur á Vestfjörðum.

„Rektor og háskólaráð hafa þegar mótað stefnu í samvinnu við allt háskólasamfélagið og það er hlutverk forseta fræðasviðanna að vinna eftir þeirri stefnu. Innan fræðasviðanna er svo reynt að tryggja að vel menntað og hæft fólk komi til starfa, að hvergi sé slakað á kröfum og að nemendur séu virkir og njóti bestu hugsanlegu möguleika til að afla sér menntunar og kynnast rannsóknum í samstarfi við kennara," segir Ólína.

Ólína segist ekki myndi gera upp á milli fræðasviðanna þar sem hún hafi starfað á báðum sviðum. Henni finnst mjög ánægjulegt hve margir góðir umsækjendur séu um störfin og telur það bera merki um að margir hafi áhuga á að koma að stefnumótun og stjórnun eftir breytingarnar á stjórnskipulagi Háskólans.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×