Innlent

Þjónustumiðstöð sett á laggirnar vegna jarðskjálftans

Geir Haarde forsætisráðherra ræddi atburði gærdagsins að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. „Við fengum þrjá gesti á fundinn til að fara yfir stöðuna og nýjustu upplýsingar," sagði Geir. Ákveðið hefur verið að tillögu dómsmálaráðherra að setja á laggirnar tímabundna þjónustumiðstöð sem verður sá aðili sem allir geta leitað til og hafa mun á höndum miðlæga veitingu á upplýsingum og þjónustu.

Geir segir að ekki sé búið að ákveða hvar þjónustumiðstöðin eigi að vera. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra muni hafa frumkvæði að stofnun hennar. „Vonandi tekst að koma henni á laggirnar sem allra fyrst," segir Geir og bætti við að gert sé ráð fyrir þessari miðstöð í nýju almannavarnalögunum.

„Við fengum minnisblað frá viðskiptaráðherra um Viðlagartryggingu Íslands og þar hafa menn brugðist hratt við. Þeir munu setja upp skrifstofu eða útibú tímabundið fyrir austan til þess að fólk geti leitað til þeirra beint þannig að þeir geti metið tjón og byrjað að greiða úr málum fólks," sagði forsætisráðherra.

Einnig hefur verið ákveðið hefur að verja nokkurri fjárhæð til að tryggja að heilbrigiðisstofnanir hafi aðgang að Tetra samskiptakerfinu en Tetra kerfið reyndist afskaplega vel í gær þegar önnur kerfi brugðust.

Geir bætti því við að ákveðið hafi verið að verja 100 milljónum í ófyrirséðan kostnað sem gæti fallið á ríkisstofnanir út af þessum atburðum. Hann sagði það gert til þess að deilur um kostnað standi ekki í vegi fyrir því að hægt sé að leysa úr málum og til allir fái nauðsynlega fyrirgreiðslu og þjónustu.

Þau Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ætla austur síðdegis til að hitta sveitarstjórnarmenn og ræða þessa atburði við þá. Að sögn Geirs komast þau ekki fyrr á svæðið vegna heimsóknar Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×