Innlent

Tíu mánaða fangelsi fyrir líflátshótanir og bensínsprengjuárás

Karlmaður hefur verið dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir að hafa meðal annars kastað bensínsprengju að heimili barnsmóður sinnar og hótað henni lífláti.

Ákæra á hendur manninum var í sjö liðum og laut að hótunum gagnvart barnsmóður hans og starfsmönnum fjölskylduþjónustu. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í fjórgang hótað sama starfsmanni fjölskylduþjónustunnar, meðal annars að kveikja í húsi hennar, að ráðast á hana og að taka hana af lífi. Hótanirnar voru meðal annars bornar fram á starfsstöð fjölskylduþjónustunnar og í gegnum síma og með smáskilaboðum.

Þá hótaði hann að taka barnsmóður sína af lífi og kastaði logandi bensínsprengju á gám sem innihélt eigur hennar, en hann stóð við sambýli þar sem barnsmóir hans dvaldi ásamt fleirum.

Þá var hann ákærður fyrir að hóta öðrum starfsmanni fjölskylduþjónustunnar og fyrir að hafa veist að þriðja starfsmanninum á veitingastað og hótað honum líkamsmeiðingum og lífláti og að brenna hús hans. Enn fremur var hann ákærður fyrir að hafa reynt að slá hann í andlitið. Þar sem hótanirnar beindust gegn opinberum starfsmönnum var maðurinn samkvæmt þessu ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni.

Hluti brotanna framinn í geðshræringu

Maðurinn var sakfelldur fyrir öll brotin. Segir í dómnum að opinberir starfsmenn, sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni manna, geti almennt átt von á því að einstaklingar sem störf þeirra varða geti orðið miður sín og misst andlegt jafnvægi. Hótunarbrot mannsins séu hins vegar langt utan þeirra marka hegðunar sem afsakanleg verður talin með skírskotan til þessa.

Taldist hluti brotanna framinn í geðshræringu vegna málefna barns mannsins og eitt brotið framið í geðshræringu vegna skilnaðar hans við barnsmóður sína þar sem hún hafði fyrr um daginn valdið skemmdum á bifreið hans.

Maðurinn á að baki nokkurn sakaferil og rauf skilorð með brotum sínum. Var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þá var hann dæmdur til að greiða tveimur starfsmanna fjölskylduþjónustunnar samtals 560 þúsund krónur í miskabætur vegna hótananna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×