Innlent

Kennarar gagnrýna andvaraleysi stjórnvalda

MYND/Stöð 2

Félag framhaldsskólakennara hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um stöðuna í viðræðum við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs um endurnýjun kjarasamnings Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum árið 2008:

„Kjarasamningur félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum var laus 30. apríl síðastliðinn og hefur viðræðum samningsaðila verið vísað til ríkissáttasemjara. Launaþróun félagsmanna KÍ hefur ekki fylgt launaþróun viðmiðunarhópa á samningstímanum. Árið 2002 voru meðaldagvinnulaun félagsmanna KÍ í framhaldsskólum þau sömu og meðaldagvinnulaun félagsmanna í BHM.

Eftir það hefur launabilið aukist, framhaldsskólanum í óhag, og var munurinn orðinn um 7% í júní 2007. Upplýsingar frá OECD um samanburð á árslaunum kennara sýna enn fremur að kennaralaun á Íslandi eru með þeim lægstu í samanburðarlöndunum.

Rekstur framhaldsskóla hefur batnað undanfarin ár og hafa starfsmenn m.a. tekið á sig meiri vinnu vegna þessa án þess þó að njóta þess í launum. Þetta er hvorki í samræmi við markmið þess kjarasamnings sem nú er laus né væntingar og vilja samningsaðila um aukna samkeppnishæfni framhaldsskólanna.

Við þetta bætist nú að framhaldsskólinn stendur frammi fyrir miklum breytingum vegna nýrra laga um framhaldsskóla. Vinna við þær breytingar mun hvíla á herðum kennara, námsráðgjafa og skólastjórnenda.

Margir mánuðir eru liðnir síðan samninganefnd KÍ/framhaldsskóla leitaði eftir því við samninganefnd ríkisins að finna leiðir til þess að endurnýja kjarasamninga og fara yfir það hvernig leiðrétta mætti það sem úrskeiðis hefur farið í markmiðssetningu kjarasamningsins um launaþróun framhaldsskólakennara.

Fundurinn gagnrýnir harðlega andvaraleysi stjórnvalda um kjör félagsmanna KÍ í framhaldsskólum og varar við þeim afleiðingum sem af því kunna að hljótast.

Fundurinn leggur fast að ráðaherrum menntamála og fjármála að taka höndum saman um að finna ásættanlega niðurstöðu um nýjan kjarasamning framhaldsskóla hið allra fyrsta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×