Erlent

Örlög Lissabon-sáttmálans í höndum Íra

MYND/AP

Örlög Lissabon-sáttmálans eru í höndum Íra sem greiða atkvæði um hann í dag. Þjóðaratkvæðagreiðslur um þetta ígildi stjórnarsáttmála Evrópusambandsins fara ekki fram í öðrum sambandsríkjum.

Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu 2005. Því þurftu leiðtogar ESB ríkja að hugsa málið upp á nýtt og var nýr stjórnarsáttmáli samþykktur á leiðtogafundi í Lissabon í Portúgal í október í fyrra.

Leiðtogar sambandsríkja skrifuðu undir hann í desember og síðan hafa þjóðþing landanna eitt af öðru samþykkt hann. Írland er eina landið sem heldur þjóðaratkvæðagreiðslu en það er bundið í stjórnarskrá landsins.

Tæpar þrjár milljónir Íra eru á kjörsskár og hefur barátta stuðningsmanna og andstæðinga sáttmálans verið hatrömm. Ráðamenn í Brussel bíða úrslitanna með mikilli eftirvæntingu því fari svo að Írar hafni sáttmálanum er framtíð hans í óvissu.

Stærstu stjórnmálaflokkar Írlands, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, styðja sáttmálann. Þingmenn Sinn Fein eru honum andvígir.

Nýjustu kannanir benda til þess að fjörutíu og tvö prósent kjósenda ætli að greiða atkvæði með sáttmálanum, þrjátíu og níu prósent ætli að hafna honum. Tæp tuttugu prósent hafa ekki gert upp hug sinn eða ætla ekki að kjósa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×