Innlent

Kominn út fyrir tólf mílur á stolnu björgunarskipi

Íslendingur um þrítugt, sem stal Ingibjörgu, fjörutíu tonna björgunarskipi, frá Höfn í Hornafirði í morgun, stefndi hraðbyri til Evrópu þegar hann fékk á sig brotsjó suður af landinu. Hann sneri þá við en með ólíkindum þykir að manninum, sem hafði enga skipstjórnarreynslu, skyldi takast að sigla tvívegis um Hornafjarðarós í mikilli ölduhæð með stýrið læst.

Það var um tíuleytið í morgun sem heimamenn uppgötvuðu að Ingibjörg, björgunarskip Slysavarnadeildar Landsbjargar á Hornafirði, var horfið úr frá Höfn en það hafði snemma um morguninn verið tekið ófrjálsri hendi. Það gerði Íslendingur um þrítugt, alls óvanur sjómennsku og siglingum, en hann stefndi þessu hraðskreiða björgunarskipi áleiðis til Evrópu.

Hann var kominn út fyrir tólf mílna landhelgi Íslands suður af Lóni þegar hann fékk á sig brotsjó og virðist þá hafa guggnað á ævintýrinu. Hann sneri við og sigldi aftur inn til Hornafjarðar en þangað kom hann um ellefuleytið. Hann hafði þá tvívegis siglt um Hornafjarðarós, einhverja erfiðistu siglingaleið sem finnst hér við land, en hún var þá lokuð öðrum skipum vegna mikillar ölduhæðar, sem var um fimm metra há.

Maðurinn var handtekinn og kom þá í ljós að hann var búnn að skrifa dagbók, en samkvæmt henni var hann búinn að hafast við í björgunarskipinu frá því á þriðjudag. Í dagbókinni var að finna nákvæmar lýsingar á öllum hans athöfnum þennan tíma, m.a. lýsingar á því hvernig hann braust inn í skipið og hvernig hann las sér til um virkni þess í bókum sem eru um borð. Hann náði þó ekki að kveikja á stýri skipsins og fór því inn og út innsiglinguna um Hornafjarðarós með því að beita vélunum einum saman, sem þykir með ólíkindum. Smávægilegar skemmdir urðu framan á skipinu en það er sjófært. Við yfirheyrslu hjá lögreglunni á Höfn í dag gat maðurinn enga skýringu gefið á því athæfinu sínu né hvert hann ætlaði að sigla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×