Innlent

Ólafur: Aðkoma borgarbúa er svo sannarlega tryggð

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri lagði fram bókun á fundi borgarráðs í dag en þar var samþykkt að ganga frá sölunni á Fríkirkjuvegi 11 til félags í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar.

Bókunin er svohljóðandi:

"Þegar Borgarstjórn Reykjavíkur staðfesti á fundi sínum 17. október 2006 samþykkt borgarráðs frá 12. október 2006 um að auglýsa húseignina að Fríkirkjuvegi 11 til sölu lagði ég fram svohljóðandi tillögu:

"Borgarstjórn Reykjavíkur leggst gegn þeim áformum sem nú liggja fyrir um sölu á Fríkirkjuvegi 11, enda tryggja þau á engan hátt aðgengi almennings að opnu grænu svæði næst húseigninni að Fríkirkjuvegi 11, sem og húseigninni sjálfri".

Tillagan kom ekki til atkvæðagreiðslu þar sem þáverandi meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks staðfesti samþykkt borgarráðs um söluáformin. Ég lét þá bóka að það væri óheppilegt að samþykkja söluáformin þar sem þau væru ekki nægilega vel undirbúin. Það hafa reynst orð að sönnu, því síðan er liðið 1 og 1/2 ár án þess að söluferlinu ljúki. Brýnt er að ljúka því sem fyrst þannig að húseignin að Fríkirkjuvegi 11 standi ekki lengur auð og hafist sé handa um að tryggja verndun hennar og viðhald. Væntanlegur kaupandi hússins segist leggja áherslu á hvoru tveggja sem og að koma upp safni í húsinu sem tryggir almenningi aðgang að því.

Með þeim kaupsamningi sem nú liggur fyrir er almenningi jafnframt tryggt óskert aðgengi að Hallargarðinum og allri lóðinni í kringum Fríkirkjuveg 11, en í 8. grein kaupsamnings segir, "kvöð er á lóðinni og almenningsgarðinum um almenna umferð gangandi og hjólandi". Engar breytingar verða gerðar á almenningsgarðinum, nema á lóðarmörkum sunnan hússins, þar sem gert verður aðkomutorg til að bæta aðgengi almennings að húsinu.

Skylt er að geta þess að á fundi borgarráðs 8. febrúar 2007 var samþykkt með atkvæðum borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að húseignin að Fríkirkjuvegi 11 verði seld hæstbjóðanda og létu borgarráðsfulltrúar Samfylkingar bóka, "að varlega verði farið í breytingar á garði eða lóð hússins, sem skert geta aðkomu borgarbúa að svæðinu".

Aðkoma borgarbúa er svo sannarlega tryggð með þeim kaupsamningi sem nú liggur fyrir borgarráði. Skýrt hefur komið fram hjá borgarlögmanni að fyrir tæplega 15 mánuðum, eða í febrúarbyrjun 2007, var kominn á bindandi kaupsamningur milli kaupanda og borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×