Viðskipti erlent

Ísland þriðja skuldsettasta iðnríki heimsins

Ísland verður þriðja skuldsettasta iðnríki heimsins í lok þessa árs. Er það mikill viðsnúningur því áður var Ísland þriðja minnst skuldsetta þjóð heims innan OECD.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að skuldir hins opinbera munu fara úr því að vera 28,9% af landsframleiðslu í lok árs í fyrra í að vera 108,9% í lok árs í ár samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

„Við þetta fer hið opinbera úr því að vera sá þriðji skuldaminnsti opinberi geirinn innan OECD, þ.e. meðal iðnríkjanna, yfir í að vera sá þriðji skuldamesti. Eftir árið í ár verða Ítalía og Japan fyrir ofan okkur á listanum en hið opinbera á Ítalíu var með skuldir sem námu 116,7% af landsframleiðslu þar í lok árs í fyrra og Japan með skuldir sem námu 170,3% af þarlendri landsframleiðslu," segir í Morgunkorninu.

Á móti verður að skoða varðandi skuldastöðu hins opinbera að talsvert af eignum kemur á móti þeirri skuldaaukningu sem er að verða. Stór hluti af aukningunni er sú erlenda lántaka sem nú á sér stað til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Lántökur ríkisins frá AGS og Norðurlöndunum fara t.d. fyrst og fremst í að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans en þar er um að ræða 55% af landsframleiðslu. Þar er gjaldeyrisforðinn á móti sem eign.

Hið sama má segja um lántöku ríkissjóðs til að veita inn sem eigið fé í bankana en sú fjárhæð nemur um 30% af landsframleiðslu. Þar er eign í bönkunum á móti.

Í þriðja lagi er lántaka ríkissjóðs vegna greiðslu innlána í gömlu bönkunum. Þar er um að ræða nær 5 milljarða dollara lánafyrirgreiðslu frá Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi sem leggur sig á nær 54% af landsframleiðslu en þar er talið að eignir séu til á móti.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×