Viðskipti innlent

Bandaríkin ætla að drekkja heiminum í dollaraseðlum

Hækkandi gengi dollarans gerir það að verkum að bandríski seðlabankinn (FED) ætlar að drekkja heiminum í dollaraseðlum. Þetta kemur fram á Bloomberg-fréttaveitunni sem segir að FED ætli að dæla fleiri dollurum inn í fjármálakerfi heimsins sem lið í leiftursókn gegn verstu kreppu kapitalismans frá þriðja áratugnum.

FED hefur þegar gert gjaldmiðlaskiptasamninga við eina 12 aðra seðlabanka í heiminum. Ísland er þar að vísu undanskilið en Seðlabanka Íslands hefur ekki tekist að fá slíkan samning frá þessari fyrrum einnar stærstu vinaþjóð okkar.

Þessir gjaldmiðlaskiptasamningar gera það að verkum að seðlabankarnir geta fengið eins mikið af dollurum og þeir geta gleypt.

Hinsvegar er enn skortur á dollurum og því hækkar gengi hans. Á tveimur mánuðum hefur gengiið styrkst um 17% gagnvart evrunni. Skorturinn skýrist af því að bankarnir hafa hamstrað dollarana og liggja svo á þeim eins og ormar á gulli, það er lána þá ekki út aftur.

Þetta skapar vandamál fyrir bandarískt atvinnulíf, einkum fyrirtæki sem flytja út vörur og þjónustu inn á evrusvæðið. Á móti hagnast svo atvinnulíf evrusvæðisins sem flytur út til Bandaríkjanna.

Fregnir um að dollarinn væri að deyja eru því stórlega ýktar. Þvert á móti hefur þessi græni seðill aldrei verið vinsælli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×