Viðskipti innlent

Samstiga í tæknilausn

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Farið yfir ferlið Lars Gruntvig, sem varð einn af stærstu hluthöfum Marels við samrunann við Scanvægt, ræðir hér við Frans-Josef Rothkötter, framkvæmdastjóra og einn eigenda kjúklingaverksmiðjunnar í Emsland.
Farið yfir ferlið Lars Gruntvig, sem varð einn af stærstu hluthöfum Marels við samrunann við Scanvægt, ræðir hér við Frans-Josef Rothkötter, framkvæmdastjóra og einn eigenda kjúklingaverksmiðjunnar í Emsland. Markaðurinn/ÓKÁ
Marel og Stork hafa í tæpan áratug átt í nánu samstarfi og er það meðal annars þess vegna sem búist við að samruni fyrirtækjanna gangi átakalítið fyrir sig, enda skarast starfsemi fyrirtækjanna lítið. Þetta er ólíkt erfiðum samruna Marels við Scanvægt í Danmörku þar sem fyrirtækin áttu í harðvítugri samkeppni.

 Óvíða kemur betur fram samstarf fyrirtækjanna en í einni fullkomnustu kjúklingaverksmiðju heims sem er í Neðra-Saxlandi í Þýskalandi. Í Emsland Frischgeflügel er vinnslulínan frá Stork Food Systems, en hugbúnaður, gæðaeftirlit og fleiri þættir frá Marel.

Í heimsókn fjárfesta og annarra gesta til Emsland fór Frans-Josef Rothkötter, framkvæmdastjóri og einn eigenda, yfir ferlið sem er einstakt bæði hvað varðar afköst og öryggi. Verksmiðjan, auk fóðurframleiðslu og annarrar starfsemi, er í eigu fjölskyldufyrirtækisins Rothkötter Kraftfutterwerk GmbH.

Reynt er eftir fremsta megni að haga slátrun kjúklinganna þannig að þeir verði ekki fyrir óþarfa óþægindum, enda skilar vanlíðan sláturdýra sér í verra kjöti. Kjúklingunum er slátrað með gasi og svo færðir upp á króka sem bera þá í gegnum alla verksmiðjuna.

Hraðinn er slíkur að á sekúndu eru unnir 6,66 kjúklingar, eða 24.000 á klukkustund. Á um það bil fjórum tímum eftir slátrun fer kjúklingurinn í gegnum fiðurhreinsun, kælingu og eftirvinnslu þar sem hann er bútaður niður og er á endanum kominn í neytenda­pakkningar og tilbúinn til flutnings í verslun.

Í Emsland er í raun um að ræða tvær verksmiðjur sem keyrðar eru hlið við hlið og skila frá sér 320 þúsund kjúklingum á dag, en fjórðungur seldra kjúklinga í Þýskalandi kemur frá þessari einu verksmiðju. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×