Atvinnulíf

„Afi var alltaf með Malt í gleri og Prince Póló á skrifstofunni“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Efnalaugin Björg hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá árinu 1953. Hér eru núverandi og fyrrverandi eigendur Efnalaugarinnar Björg í Mjóddinni, fv.: Hjónin og núverandi eigendur Þuríður V. Eiríksdóttir og Guðrún Erla Sigurðardóttir auk foreldra Guðrúnar, Ágústu Magnúsdóttur og Sigurðar Jónssonar, fyrrum eigenda. Það var faðir Ágústu sem stofnaði fyrirtækið.
Efnalaugin Björg hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá árinu 1953. Hér eru núverandi og fyrrverandi eigendur Efnalaugarinnar Björg í Mjóddinni, fv.: Hjónin og núverandi eigendur Þuríður V. Eiríksdóttir og Guðrún Erla Sigurðardóttir auk foreldra Guðrúnar, Ágústu Magnúsdóttur og Sigurðar Jónssonar, fyrrum eigenda. Það var faðir Ágústu sem stofnaði fyrirtækið. Vísir/Vilhelm

„Mér fannst þetta alltaf spennandi og sem barni þótti manni líka svo merkilegt ef maður sá frægt fólk. Alþingismennirnir, Hemmi Gunn og forsetinn voru meðal þeirra sem ég man eftir að hafa þótt merkilegt að sjá,“ segir Guðrún Erla Sigurðardóttir og skellihlær. „Já, þeir komu forsetarnir og bílstjórarnir þeirra, það er rétt,“ segir móðir hennar Ágústa Kristín Magnúsdóttir og bætir við: „Ég man til dæmis að Ásgeir Ásgeirsson forseti verslaði við pabba þegar Efnalaugin Björg var á Sólvallagötunni.“

Í helgarviðtali Atvinnulífsins heyrum við söguna á bakvið fjölskyldufyrirtækið Efnalaugin Björg.

Lærði fatahreinsun 1940

Stofnandi Efnalaugarinnar Björg var Magnús Kristinsson. Magnús fæddist í Vestmannaeyjum árið 1923 en lést fyrir tveimur árum síðan. Eiginkona hans var Ragnheiður Guðmundsdóttir, sem fæddist árið 1924 en lést árið 1977.

Árið 1940 fór Magnús til Reykjavíkur til að læra að hreinsa fatnað. Hann hóf þá störf hjá Oddi Jónassyni sem átti og rak Efnalaugina Glæsi. Fatahreinsunin var þó nokkuð frábrugðin því sem nú er. Vélar unnu verkið með vökva sem var mun olíukenndari en nú tíðkast og þvotturinn fór í vindur þar til þurrkararnir komu.

Árið 1941-1942 byggðu Magnús og Oddur efnalaug í Vestmannaeyjum. Þar var Magnús verkstjóri í tvö ár. Árið 1953 stofnar Magnús Efnalaugina Björg og hóf starfsemina fyrst á Sólvallargötu.

Um hálf ellefu á morgnana hjólaði ég til pabba í vinnuna og færði honum nesti. Um níu ára gömul sóttist ég í þvottinn um helgar til að fá að strauja,“ 

segir Ágústa og hlær.

Tólf ára gömul var Ágústa farin að vinna hjá pabba sínum á sumrin. Systurnar voru þrjár talsins, en yngri systur Ágústu, Soffía og Jónína, eru báðar látnar.

Forsetabíll Ásgeirs Ásgeirssonar forseta fyrir utan Efnalaugina Björg þegar hún var starfrækt á Sólvallagötu.

Dísa og krakkarnir í hverfinu

Samhliða rekstrinum á Sólvallagötunni rak Magnús útibú í Barmahlíð í nokkur ár. Magnús flutti síðan fyrirtækið frá Sólvallagötu og á Háaleitisbraut 58-60 þar sem efnalaugin er enn til húsa. 

Frá upphafi hefur fyrirtækinu haldist vel á starfsfólki og nefnir Ágústa sérstaklega Þórdísi Filippusdóttur, sem nú er yfir aldargömul og starfaði hjá föður hennar alla sína tíð.

„Það kom maður hérna um daginn og spurði einmitt um Dísu,“ segir Guðrún þá.

Hann sagði að Dísa hefði tekið á móti þeim æskufélögunum í vinnunni og gefið þeim morgunmat fyrir skólann. Eftir skóla mættu þeir aftur og hún hjálpaði þeim að læra.“

Ágústa kinkar kolli og segir „Já Dísa sá um krakkana í hverfinu.“

Þá segir Ágústa afar sjaldgæft að fólk hafi hætt að vinna hjá þeim, þó hafi einstaka ungar konur gert það vegna barneigna. Alltaf hafi fyrirtækið verið heppið með framúrskarandi gott starfsfólk.

„Ég man til dæmis eftir Óla Andreasyni sem vann hjá pabba alla tíð og var alltaf svo fínn til fara að pabbi sagði að allir héldu að hann væri eigandinn!“ segir Ágústa og hlær.

Ágústa er dóttir stofnanda Efnalaugarinnar Björg og sóttist strax í straujárnið níu ára gömul. Hún segir áhugann á fatahreinsun í blóðinu en feðginin Sigurður og Guðrún segja engan skáka Ágústu í þekkingu á erfiðum blettum í flíkum. Starfsferill Ágústu spannar um sextíu ár.Vísir/Vilhelm

Með tengdasoninn til Barcelona

Árið 1966 er fjölskyldan í Spánarferð. Sigurður Jónsson var þá orðin heitmaður Ágústu og fór með tengdaföður sínum til Barcelona að kynna sér leður- og rúskinnshreinsun.

„Reyndar kom farastjórinn með okkur sem túlkur en ekki gekk það betur en svo að við villtumst af leið strax í lestarferðinni,“ segir Sigurður og hlær.

En hvað fékk þig til að fara með í þessa ferð?

Á þessum tíma var ekkert hlaupið að því að fara í bankann að slá víxil og því bara vann maður og vann. Ég hjálpaði oft til og eftir Barcelonaferðina sá ég um leður- og rúskinnshreinsun einu sinni í viku til að vinna okkur inn aukapening.“

Önnur kynslóð tekur við

Árið 1985 tóku systurnar Ágústa og Soffía við rekstrinum, ástamt eiginmönnum sínum, Sigurði og Kristni Guðjónssyni.

„Tímasetningin hentaði mér líka vel þá því við vorum nokkrir sem rákum byggingafyrirtæki en vorum að klára stórt verk sem var húsið sem Nói/Síríus er í núna. En ég hætti sem smiður og fór með Ágústu alveg inn í reksturinn,“ segir Sigurður.

Árið 1987 opnaði Efnalaugin Björg útibú í Mjóddinni, eitt af þremur fyrstu fyrirtækjunum til að opna þar. 

Systur og svilar ákváðu fljótlega að skipta rekstrinum upp. Ágústa og Sigurður tóku Mjóddina en Soffía og Kristinn Háaleitisbrautina. 

Vefsíða og nafn er þó alltaf undir sama hatti.

„Og nú er sonurinn Kristinn, sonur Soffíu og Kristins, tekinn við Háaleitisbrautinni og Guðrún okkar tekin við Mjóddinni,“ segir Ágústa.

Hjónin Ágústa og Sigurður störfuðu saman um árabil í Efnalauginni Björg í Mjódd. Um aldamótin ákváðu þau að spyrja börnin sín fjögur, hvort eitthvert þeirra sæi fyrir sér að koma inn í reksturinn. Guðrún var sú eina sem sagði ,,Já," en fram að því áttu hjónin til að mynda erfitt með að fara saman í sumarfrí.Vísir/Vilhelm

Þriðja kynslóðin

„Um aldamótin tókum við síðan samtal við krakkana í sumarbústaðaferð og spurðum hvort eitthvert þeirra sæi fyrir sér að taka við keflinu. Okkur fannst gott til þess að vita ef svo yrði og eins myndi það létta á okkur til að komast saman í sumarfrí,“ segja Ágústa og Sigurður, en börnin þeirra eru fjögur; tvær dætur og tveir synir.

En hvers vegna Guðrún?

„Ég var sú eina sem sagði Já!“ segir Guðrún og hópurinn skellir upp úr. 

Guðrún starfaði lengi sem verslunarstjóri hjá Olís en hafði þó byrjað að vinna hjá afa sínum sem ung stelpa.

Afi var alltaf með Malt í gleri og Prince Póló á skrifstofunni þannig að það var alltaf gaman að fara til afa í vinnuna. Það var líka ekkert slæmt að vera barnabarn í vinnu þar því bæði hann og konurnar hjá honum dekruðu mig mikið,“ 

segir Guðrún en leggur þó áherslu á að hún hafi alltaf þurft að standa sína pligt og mátti aldrei mæta of seint.

Rúrý og kassakerfið

Fyrir þremur árum keyptu Guðrún og Þuríður eiginkona hennar reksturinn. Þuríður, sem alltaf er kölluð Rúrý, viðurkennir að hún hafi ekki verið jafn heilluð af starfseminni og Guðrún.

„Ég ætlaði sko aldrei að fara að vinna hérna!“ segir Rúrý og hópurinn skellihlær.

„Kassakerfið var flókið, lyktin vond og mér fannst ekkert spennandi við þetta. Ég var að læra fasteignasalann og ætlaði sko alls ekki að fara að vinna hér,“ segir Rúrý.

En hvað breyttist?

„Þetta er bara svo skemmtilegt!“ segir Rúrý og aftur skellir hópurinn upp úr.

„Það er lygilegt en satt en þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í,“ segir Rúrý.

Öll segja þau það standa upp úr að hitta viðskiptavini og spjalla við þá. 

Þá segir Rúrý þá stund hafa runnið upp að hún hafi orðið að læra á blessaða kassakerfið. 

„Katrín í þáttunum Með okkar augum var að vinna hér og stríddi mér stanslaust með því að segja við Guðrúnu að hún væri miklu betri á kassakerfið en konan hennar. Mér fannst ég því ekki geta annað en lært á þetta blessaða kerfi,“ segir Rúry og kímir.

Hún viðurkennir að vinnan fari heim með þeim hjónum. Þar sé talað um vinnuna og oft sitji Guðrún við vefsíðuna á kvöldin á meðan hún sjálf býr til auglýsingar. Saman eiga þær þrjár dætur; 6 ára, 11 ára og 12 ára.

Okkur finnst þetta reyndar svo gaman að það er hálfgert rifrildi á morgnana hvor fær að fara í vinnuna fyrr og hvor á að koma börnunum í skólann,“ 

segir Rúrý og hjónakornin skella upp úr.

Hjónin Guðrún og Rúrý eru eigendur Efnalaugarinnar Björg í dag. Þótt Rúrý hafi ekki verið spennt fyrir starfseminni í upphafi segir hún vinnuna svo skemmtilega að oft myndist hálfgert rifrildi á morgnana, hvor þeirra fái að fara fyrr í vinnuna og hvor sjái um að koma börnunum í skólann.Vísir/Vilhelm

Covid, Bjarni Ben og Katrín

Ágústa og Sigurður minnast helst bankahrunsins þegar talið berst að erfiðum tímum. Guðrún og Rúrý nefna Covid.

„Við misstum fermingar, brúðkaup, hótel- og veitingageirann, afmæli, árshátíðir og síðan voru allir sendir heim í fjarvinnu,“ segir Guðrún til skýringar á því að salan beinlínis hrundi.

Öll hafa þau veikst af Covid og það í mars 2020.

Ágústa og Sigurður kenndu sér minnst meins, misstu lyktar- og bragðskyn um tíma en upplifðu veiruna að öðru leyti eins og kvef.

Guðrún og Rúrý urðu hins vegar mjög veikar. Sérstaklega Guðrún.

Ég man að ég lá fárveik í rúminu og beið eftir Bjarni Ben og Katrínu að kynna aðgerðarpakka fyrir fyrirtækin. Og þá loks bara „hjúkket,“ okkur verður eitthvað hjálpað,“ 

segir Guðrún og viðurkennir að svo mikið hafi henni létt að eftir fund Bjarna og Katrínar að það hafi ekki verið fyrr en eftir fundinn sem hún var lögð inn á sjúkrahús. 

Og það sama kvöld!

Með bólusetningu í augsýn segjast Guðrún og Rúrý þó vonast eftir að brátt birti til á ný.

„Jakkafötin og skyrturnar eru að byrja að koma sem þýðir að fólk er farið að mæta meira á vinnustaðina,“ segir Rúrý.

Gildi Magnúsar lifa

Þótt þriðja kynslóðin sé tekin við rekstrinum, lifa gildi Magnúsar Kristinssonar enn.

Pabbi keypti barnasálmabækur fyrir fyrsta uppgjörið þegar hann opnaði 1953 því hann trúði því að góðverk myndu skila rekstrinum velgengni,“ 

segir Ágústa og bætir við: 

„Pabbi starfaði líka lengi fyrir Styrktarfélag vangefinna því Jónína yngsta systir mín var þroskaheft. Alla tíð höfum við því ráðið reglulega til okkar fólk með skerta getu. Gefa því  tækifæri og nýta um leið hæfileika þeirra og mannauð,“ segir Ágústa.

Þá segir Sigurður að þegar Ísland tók við fyrsta hóp flóttafólks frá Víetnam árið 1979, hafi félagi hans spurt hvort þau gætu ráðið konu úr hópnum í vinnu.

Starfsfólk Efnalaugarinnar Björg í Mjóddinni. Hugmyndina að lógóinu fékk Magnús Kristinsson þegar hann fletti dönsku blaði á sjötta áratug síðustu aldar.Vísir/Vilhelm

„Sem við gerðum og hún starfar hjá okkur enn. Það gerir systurdóttir hennar reyndar líka,“ segir Sigurður.

„Fyrsti viðskiptavinurinn eftir opnun um áramót fær líka alltaf frítt hjá okkur. Pabbi byrjaði á þessu fyrir löngu og þetta er hefð sem við höfum haldið áfram með,“ segir Ágústa.

Guðrún og Rúrý taka það fram að þær hafi tekið við góðu búi. 

Þá segir Guðrún upplifa það sem mikil forréttindi að hafa starfað svona náið með foreldrum sínum. Sambandið sem myndist sé öðruvísi fyrir vikið og reynsla og viska eins og og móðir hennar búi yfir, sé hreinlega einstök.

„Mér þykir til dæmis ekkert leiðinlegt að segja við kúnna sem kemur með erfiðan blett að mamma sé að koma og ég muni plata hana í þetta,“ segir Guðrún og hlær.

Þá segir hún afa sinn hafa vaktað reksturinn fram á sinn síðasta dag.

Við afi hittumst reglulega í hádeginu og hann lagði mér línurnar. Meira að segja daginn sem hann dó ræddi hann við mig um auglýsinga- og markaðsmálin. 

Afi sagði líka alltaf að við yrðum að vera vel vakandi, alltaf á tánum, passa upp á að vera alltaf með einhverja sérstöðu og fylgjast vel með öllum nýjungum.“

Gamla myndin

Hjónin Ragnheiður Guðmundsdóttir og Magnús Kristinsson á opnunardegi Efnalaugarinnar Björg þann 13.október árið 1953. Magnús reykti ekki en í tilefni dagsins þótti við hæfi að halda á vindli í myndatöku. 

Tengdar fréttir

„Ætli maður mæti ekki á morgnana af gömlum vana“

„Ætli maður mæti ekki á morgnana af gömlum vana,“ segir Ragnar Matthíasson framkvæmdastjóri Poulsen og hlær. „Maður hefði alla vega nóg annað að gera ef maður myndi hætta að vinna. Ég er í hestunum, með sumarbústað og síðan erum við með fjölskylduhús á Spáni og því alveg hægt að segja í gríni að vinnan sé að trufla áhugamálin!“ segir Ragnar.

„Ég leiðrétti hana og benti á að ég er ekki mamma mín“

„Ég myndi segja að kvenleggurinn í fjölskyldunni samanstandi af miklum fagurkerum. Við viljum allar hafa fínt í kringum okkur. Meira að segja amma er enn að, nú 92 ára og rétt nýbúin að láta mála hjá sér og skipta um gardínur,“ segir Hrund Kristjánsdóttir og hlær. Hrund rekur húsgagnaverslunina Línuna með eiginmanni sínum Ágústi Jenssyni húsasmíðameistara. Línan var stofnuð árið 1976 og hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldu.

Bankahrunið ekkert á við Covid

„Asíubúarnir eru áberandi jákvætt og hresst fólk. Maður setur kannski fyrirvara á ökufærnina hjá þeim en þessi hópur fer hvorki hratt yfir eða langt upp á jökul. Það þýðir til dæmis ekkert að blanda Asíubúum saman við hóp af Norðmönnum því Norðmennirnir vilja fara hraðar og lengra,“ segir Haukur Herbertsson rekstrarstjóri fjölskyldufyrirtækisins Mountaineers of Iceland.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×