Viðskipti innlent

Snarpur viðsnúningur í notkun greiðslukorta

Snarpur viðsnúningur hefur orðið í notkun greiðslukorta. Eftir neyslugleði undanfarin misseri virðast lakari efnahagshorfur, óvissa á fjármálamörkuðum og aukin svartsýni neytenda hafa hvatt heimilin til aukins aðhalds í marsmánuði ef marka má tölur yfir greiðslukortaveltu.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að samkvæmt tölum Seðlabankans nam greiðslukortavelta í marsmánuði rúmum 55 milljörðum kr. Af því var velta vegna kreditkortanotkunar 24,7 milljarðar kr. en velta með debetkort nam 20,6 milljörðum kr. í mánuðinum.

Raunþróun kreditkortanotkunar, að viðbættri notkun debetkorta í innlendum verslunum, hefur undanfarin ár gefið allglögga mynd af þróun einkaneyslu. Í þessari þróun hefur verið allskarpur viðsnúningur undanfarna mánuði, og í mars reyndist raunvöxtur slíkrar kortanotkunar 1% á milli ára og hefur hann ekki verið hægari undanfarið ár.

Á fyrsta fjórðungi ársins var raunvöxtur kortanotkunar, skilgreindur með ofangreindum hætti, 4% að meðaltali.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×