Erlent

Hafa áhyggjur af almennum borgurum í Suður-Ossetíu

Almennir borgarar í Suður-Ossetíu leita skjóls frá átökum.
Almennir borgarar í Suður-Ossetíu leita skjóls frá átökum. Mynd/AP

Alþjóðlegi Rauði krossinn krefst þess að mannúðarlög séu virt í Suður-Ossetíu og hafa þungar áhyggjur af almennum borgurum á svæðinu. Átök fara harðnandi í Suður-Ossetíu á milli Georgíu og aðskilnaðarsinna og eru hermenn Rússlands á leið inn í héraðið til stuðnings aðskilnaðarsinnum.

Rauði krossinn krefst þess að mannúðarsamtök fái óskertan aðgang að átakasvæðum en erfitt hefur reynst að sækja þá særðu og skelkaðir íbúar leita skjóls í kjöllurum húsa sinna án aðgangs að rafmangni,vatni, síma eða almennri þjónustu.

Alþjóðlegi Rauði krossinn biður stríðandi fylkingar að skilja á milli almennra borgara og þátttakenda í átökunum en stranglega bannað er samkvæmt mannúðarlögum að ráðast beint að óbreyttum íbúum héraðsins.

„Alþjóða Rauði krossinn er í sambandi við alla aðila átakanna og vinnur nú að því að meta aðstæður óbreyttra borgara á svæðinu. Samtökin hafa yfir að ráða neyðarbirgðum af lyfjum og hreinu vatni sem hægt er að dreifa til nauðstaddra ef þörf krefur. Alþjóða Rauði krossinn hefur starfað í Georgíu síðan 1992 við að aðstoða fórnarlömb átaka á svæðinu." Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×