Handbolti

Logi: Skemmtilegasta stund lífs míns

Henry Birgir Gunnarsson í Peking skrifar
Logi Geirsson og Björgvin Páll Gústavsson fagna sigrinum.
Logi Geirsson og Björgvin Páll Gústavsson fagna sigrinum. Mynd/Vilhelm
„Það er óhætt að segja að maður sé hrikalega glaður en maður tekur þessu með jafnaðargeði. Við megum ekki missa okkur í gleðinni. Fagna þessu smá og fara svo að hugsa um næsta verkefni," sagði stórskyttan Logi Geirsson og brosti allan hringinn. Logi átti fínan leik eins og allir strákarnir og skorað fjögur flott mörk.

„Ég viðurkenni að þetta er frekar stórt. Það er allt fullt af erlendum blaðamönnum hérna að spyrja að því hvernig þetta sé hægt. Þeir skilja ekki að 300 þúsund manna þjóð geti náð slíkum árangri í hópíþrótt. Við erum ekkert að spá í slíku heldur erum við ferskir og einbeittir og getum ekki beðið eftir næsta leik. Nú erum við að fara pottþétt að spila um medalíu og úrslit ef við vinnum næsta leik. Það er magnað. Þetta er dúndurlið og við spyrjum að leikslokum," sagði Logi og gleðin leyndi sér ekki.

„Þetta er helvíti gaman og þetta er skemmtilegasta stund lífs míns. Það toppar Evróputitilinn með Lemgo að komast í þessa stöðu. Ef þetta kveikir ekki í manni þá er eitthvað að."




Tengdar fréttir

Ísland spilar um verðlaun á Ólympíuleikunum

Ísland vann glæsilegan sigur á Pólverjum í fjórðungsúrslitum handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking, 32-30. Ísland spilar þar með um verðlaun á leikunum.

Alexander: Ég trúi þessu varla

„Þvílíkur leikur og við höfðum trú á okkur allan tímann. Það lögðust allir á eitt því við viljum svo innilega láta drauminn rætast sem er að vinna medalíu. Við sýndum hverslags lið við erum í þessum leik. Við erum með rosalega gott lið,“ sagði járnmaðurinn Alexander Petersson og brosti allan hringinn.

Guðjón Valur: Erum ekki hættir

„Venjulega segir maður bara tvö stig og ekkert annað en þessi sigur þýðir að við erum á leið í undanúrslit á Ólympíuleikum og það er einfaldlega frábær tilfinning,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson að vonum glaður eftir sigurinn á Pólverjum.

Sigfús: Medalían er á leiðinni

„Mér líður rosalega vel og er ekkert smá stoltur af strákunum. Diddi [Ingimundur] og Sverre voru að vinna eins og brjálaðir menn í dag. Drápu allt sem kom inn á miðjuna og Bjöggi alveg brjálaður á bakvið. Það voru allir flottir í dag,“ sagði skógarbjörninn Sigfús Sigurðsson kampakátur eftir sigurinn á Pólverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×