Handbolti

Ísland spilar um verðlaun á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Íslensku leikmennirnir fagna sætum sigri á Pólverjum í dag.
Íslensku leikmennirnir fagna sætum sigri á Pólverjum í dag. Mynd/Vilhelm

Ísland vann glæsilegan sigur á Pólverjum í fjórðungsúrslitum handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Peking, 32-30. Ísland spilar þar með um verðlaun á leikunum.

Ísland mætir annað hvort Suður-Kóreu eða Spáni í undanúrslitum en sá leikur hefst klukkan 12.15 í dag. Leikur Íslands í undanúrslitum fer fram á föstudaginn klukkan 12.15.

Staðan í hálfleik var 19-14, íslenska liðinu í vil. Fyrri hálfleikur var glæsilegur þar sem allt gekk upp, í markvörslu, vörn og sókn.

Síðari hálfleikur var erfiðari. Pólverjar þéttu vörnina og náðu í kjölfarið að minnka muninn í eitt mark, 23-22, eftir þrettán mínútur í seinni hálfleik. En Ísland lét ekki slá sig alveg út af laginu og þegar mest þurfti skoraði íslenska sóknin og Björgvin Páll varði í markinu.

Björgvin Páll Gústavsson átti sennilega besta leik lífs síns en hann varði 23 skot í markinu, þar af eitt víti. Frammistaða hans var einfaldlega í algjörum heimsklassa.

Ísland náði aftur að komast í þriggja marka forystu en varð fyrir áfalli er Snorri Steinn brenndi af víti og Pólverjar skoruðu tvö í röð á stuttum tíma. Í stað þess að vera með fjögurra marka forystu voru Pólverjar aftur búnir að minnka muninn í eitt mark.

En sem fyrr varði Björgvin glæsilega í markinu og íslenska sóknin kláraði sitt með miklum stæl. Á síðustu mínútum leiksins var Ísland með 2-3 marka forystu og Pólverjar komust ekki nær, sama hvað þeir reyndu.

Allir áttu frábæran dag í íslenska liðinu. Það er erfitt að taka einhvern út en Alexander Petersson skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði þar með sigur íslenska liðsins. Mörkin hans voru einkar sæt.

Ingimundur og Sverre voru gríðarlega öflugir í vörninni og eiga mikið hrós skilið.

Nú bíða Spánverjar eða Suður-Kóreumenn og ljóst að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari á mikið verk fyrir höndum að ná sínum mönnum aftur á jörðina. Leikurinn fer fram á föstudaginn klukkan 12.15.

Tölfræði leiksins:

Ísland - Pólland 32-30 (19-14)

Gangur leiksins: 1-0, 3-1, 7-4, 10-7, 14-10, 16-12, (19-14), 19-16, 21-16, 21-18, 23-20, 24-23, 27-24, 27-26, 30-27, 31-29, 32-30.

Mörk Íslands (skot):

Alexander Petersson 6 (8)

Guðjón Valur Sigurðsson 5 (7)

Snorri Steinn Guðjónsson 5/1 (9/2)

Logi Geirsson 4 (7)

Ólafur Stefánsson 4/1 (8/1)

Róbert Gunnarsson 3 (3)

Arnór Atlason 3 (6)

Sigfús Sigurðsson 1 (1)

Ingimundur Ingimundarson 1 (1)

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 23/1 (52/3, 44%, 60 mínútur)

Skotnýting: 32/50, 64%

Vítanýting: Skorað úr 2 af 3.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 6 (Alexander 2, Guðjón Valur 2, Logi 1 og Ólafur 1).

Fiskuð víti: Snorri Steinn 2 og Róbert 1.

Utan vallar: 16 mínútur.

Rautt: Sverre Jakobsson, 59:23 (þriðja brottvísun)

Markahæstir hjá Póllandi:

Mateusz Jachlewski 6

Grzegorz Tkaczyk 6

Bartlomiej Jaszka 4

Mariusz Jurasik 4

Varin skot:

Slawomir Szmal 14/1 (46/3, 30%, 60 mínútur)

Skotnýting: 30/55, 55%

Vítanýting: Skorað úr 2 af 3.

Mörk úr hraðaupphlaupum: 5.

Utan vallar: 6 mínútur.

07.43 Ísland - Pólland 32-30

Heill sé þér, Alexander Petersson. Hann skoraði síðustu tvö mörk íslenska liðsins og tryggði þar með endanlega sigurinn. Skipti engu máli þó Sverre fengi rautt fyrir þriðju brottvísunina.

Manni er orða vant. Ég man varla hvað gerðist síðustu mínúturnar í leiknum. Ísland spilar um verðlaun á Ólympíuleikunum - það er bara þannig.

07.40 Ísland - Pólland 30-28

Ísland gat komist fjórum yfir en þá var dæmdur ruðningur á Guðjón Val. Íslenska vörnin hefur verið frábær síðustu mínúturnar og pólsku sóknirnar eru langar. Pólverjar skora að þessu sinni. Ein og hálf eftir.

07.35 Ísland - Pólland 29-27

Ótrúleg þróun. Ingimundur fékk að fjúka út af og Pólverjar gátu minnkað muninn í eitt mark. En þá varði Björgvin úr dauðafæri og Snorri skoraði af línu auk þess að fiska mann út af. En Pólverjar svara. Tæpar fjórar eftir - KOMA SVO!!!

07.29 Ísland - Pólland 27-25

Snorri Steinn var að klikka á víti sem var alger óþarfi og Pólverjar minnka muninn í tvö mörk þegar rúmar átta mínútur eru eftir. Ef ég væri ekki bundinn við þessa lýsingu væri ég sennilega búinn að slökkva á sjónvarpinu, slík er spennan.

07.25 Ísland - Pólland 27-24

Já, sóknin er að ganga ágætlega þessa stundina, sem betur fer. Ellefu mínútur eftir. Ísland verður að halda þetta út.

07.20 Ísland - Pólland 24-23

Guðmundur tekur leikhlé. Þetta hefur verið erfitt en á 13 mínútum hafa Pólverjar minnkað muninn úr fimm mörkum í eitt. Íslenska sóknin þarf að komast í gang á ný.

07.15 Ísland - Pólland 24-22

Logi fær að fjúka út af og Pólverjar ganga á lagið og minnka muninn í eitt mark. Íslensku sókninni hefur gengið illa þessar síðustu mínútur.

07.10 Ísland - Pólland 21-18

Sverre fékk brottvísun öðru sinni í leiknum og Pólverjar hafa náð upp góðum varnarleik í síðari hálfleik. Strákarnir hafa verið að skjóta Szmal markvörð í stuð sem er mikið áhyggjuefni. Nú gengur Pólverjum vel en Íslendingar verða að standa þetta af sér.

07.05 Ísland - Pólland 21-16

Pólverjar byrja síðari hálfleikinn af krafti og skora fyrstu tvö mörkin. En Íslendingar svara með tveimur mörkum á móti og Björgvin hefur farið mikinn í markinu.

06.52 Ísland - Pólland 19-14 - hálfleikur

Vá, þvílíkur fyrri hálfleikur. Þetta eru sennilega bestu þrjátíu mínútur sem íslenskt landslið hefur sýnt lengi. Það var allt frábært við þennan fyrri hálfleik. Vörn, sókn, markvarsla, baráttan og hvernig íslenska liðið brást við mótlætinu.

Fylgifiskur þess að spila svo grimma vörn er að íslensku leikmennirnir hefur fjórum sinnum verið vikið af velli. Það er ágætt að það hefur dreifst á fjóra leikmenn en þetta gæti orðið áhyggjuefni í síðari hálfleik.

En það er gjörsamlega stórkostlegt að markaskorun liðsins hefur dreifst á átta leikmenn íslenska liðsins. Björgvin hefur varið níu skot í markinu og átt stórleik.

Mörk Íslands (skot):

Snorri Steinn Guðjónsson 4/1 (6/1)

Arnór Atlason 3 (3)

Guðjón Valur Sigurðsson 3 (3)

Alexander Petersson 3 (3)

Róbert Gunnarsson 2 (2)

Logi Geirsson 2 (4)

Sigfús Sigurðsson 1 (1)

Ólafur Stefánsson 1 (4)

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 9/1 (23/2, 39%, 30 mínútur)

06.49 Ísland - Pólland 18-13

Vörnin hefur vissulega verið frábær en sóknin hefur verið hreint stórbrotin síðustu mínúturnar. Glæsilegar línusendingar hvað eftir annað og menn grimmir í fráköstin.

06.44 Ísland - Pólland 14-11

Ísland missir menn út af og Pólverjar eru grimmir að skora þessa stundina en alltaf skorar frábær íslensk sókn. Mótlætið er ekkert að hafa áhrif á íslenska liðið, það er ljóst.

Guðmundur tók leikhlé er Ísland var með boltann. Nú er ljóst að Ísland má ekki missa þetta góða forskot niður á þessum fimm síðustu mínútum fyrri hálfleiks. Ef Pólverjar jafna yrði það þó nokkuð áfall fyrir íslenska liðið sem hefur átt frábæran fyrri hálfleik.

06.38 Ísland - Pólland 11-7

Björgvin Páll er fyrsti markvörðurinn á mótinu til að verja frá Tomasz Tluczynski, vítaskyttu pólska liðsins. Vonandi að þetta mótlæti fari illa með Pólverjana. Arnór skorar í kjölfarið og forysta íslenska liðsins orðin fjögur mörk er Pólverjar taka leikhlé.

06.31 Ísland - Pólland 8-6

Ísland átti kost á að komast í fjögurra marka forystu en þá kom smá hikst í íslensku sóknina og Pólland minnkaði muninn í 7-6.

06.24 Ísland - Pólland 5-3

Vörnin er enn frábær og pólska sóknin á í miklum vandræðum. Þrjú íslensk mörk í hraðaupphlaupum til þessa en Ísland komst í 5-2 forystu.

06.20 Ísland - Pólland 3-1

Ja hérna. Þvílík draumabyrjun. Frábær íslensk vörn, tvö íslensk mörk úr hraðaupphlaupum og Björgvin er líka byrjaður að verja.

06.17 Ísland - Pólland 1-0

Byrjunin lofar góðu. Íslenska vörnin er mjög grimm og stöðvaði pólsku sóknina í tvígang og skoraði eitt úr hraðaupphlaupi. Tvær sóknir íslenska liðsins hafa þó farið í súginn.

06.15 Ísland - Pólland 0-0

Leikurinn er hafinn og það eru Íslendingar sem byrja með boltann.

06.13 Frakkar unnu Rússa

Frakkar unnu þriggja marka sigur á Rússum í fyrsta leik fjórðungsúrslitanna og eru því komnir í undanúrslit.

Frakkar í undanúrslit

06.00 Velkomin til leiks

Vísir heilsar hér á þessum miðvikudagsmorgni en nú er stutt í að leikur Íslands og Póllands hefjist. Þetta er leikur í fjórðungsúrslitum keppninnar á Ólympíuleikunum en sigurvegari leiksins mætir sigurvegara leiks Suður-Kóreu og Spánverja.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×