Erlent

Marglyttufár veldur usla við baðstrendur Frakklands

Yfirvöld í Frakklandi hafa varað sóldýrkendur við marglyttufári við strendur landsins.

Marglittur hafa verið að brenna baðstrandagesti í Frakklandi í allt sumar. Physalia Physalis getur valdið slæmum sárum og dæmi eru um dauðsfföll ef menn fá þær margar á sig og eru veikir fyrir eða aðstæður eru erfiðar í sjónum.

Armar marglittunnar geta náð tveggja metra lengd og þessa dagana eru þær milljónum saman við Frakkland, bæði í Atlantshafinu og Miðjarðarhafinu. Á einum degi í júlí voru björgunarsveitir í Nice kallaðar út fimm hundruð sinnum vegna marglittubruna.

Svona marglittufár kemur upp við strendur Frakklands að meðaltali með tíu til tólf ára fresti og stendur í fjögur til fimm ár. Þetta er hins vegar áttunda árið sem mikið er um marglyttur við Frakkland - og þeim virðist fjölga stöðugt.

Franskir strandgestir eru í auknum mæli farnir að klæða sig í sundföt sem hylja nær allan líkamann. En sú lausn hefur samt þá vankanta að sundfötin koma í veg fyrir sólbrúnku, eru dýr og þykja ekki mikið augnayndi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×