Erlent

Georgíumenn kæra Rússa fyrir þjóðernishreinsanir

Stjórnvöld í Georgíu höfðuðu í dag mál á hendur Rússum fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag vegna þjóðernishreinsana Rússa á árunum 1993-2008 eins og Georgíumenn orða það. Frá þessu greindi sendiherra Georgíu í Hollandi í dag.

Alþjóðadómstólinn tekur fyrir deilur þjóða en þetta er enn eitt útspilið í deilu Georgíumanna og Rússa vegna sjálfstjórnarhéraðsins Suður-Ossetíu. Rússar tilkynntu fyrr í dag að þeir hefðu hætt hernaðaraðgerðum í Georgíu en að Georgíumenn þyrftu að ganga að tilteknum skilyrðum til þess að friður kæmist á.

Við þetta má bæta að aðalsaksóknari Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í Haag, Luis Morenu-Ocampo, útilokar ekki að ráðist verði í rannsókn á átökunum í Georgíu og Ossetíu, en Rússar og Georgíumenn hafa sakað hvorir aðra um þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð. Meðal hlutverka dómstólsins er að rannsaka slíka glæpi.

Rússar halda því fram að 1600 borgarar í Suður-Ossetíu hafi fallið átökum síðustu vikuna en Georgíumenn segja 200 látna og hundruð særð. Engin staðfesting hefur fengist á þeim tölum. Þá segja Sameinuðu þjóðirnar að nærri hundrað þúsund manns hafi yfirgefið heimili sín vegna átakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×