Innlent

Samfylkingin sökuð um loddaraskap

Þingflokksformaður Vinstri grænna sakaði Samfylkinguna um loddaraleik í umræðum um eftirlaun æðstu ráðamanna á Alþingi í morgun. Breytingatillaga stjórnarandstöðu um að ráðamenn njóti sömu lífeyriskjara og aðrir opinberir starfsmenn, var felld.

Greidd voru atkvæði um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um eftirlaun forseta Íslands, þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara að lokinni annarri umræðu á Alþingi í morgun. Stjórnarandstaðan stóð saman að breytingartillögu við fyrstu grein frumvarpsins, um að æðstu ráðamenn nytu sömu lífeyrisréttinda og aðrir opinberir starfsmenn, en sú tillaga var felld með 39 atkvæðum gegn fimmtán. Ögmundur Jónasson þingflokksformaður Vinstri grænna var fyrsti flutningsmaður breytingatillögunnar. Hann sagði frumvarp ríkisstjórnarinnar ekki afnema sérréttindi æðstu ráðamanna.

Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar sagði frumvarp ríkisstjórnarinnar afnema sérreglur um kjör forsætisráðherra, aldursmörk til töku lífeyris væru hækkuð og lífeyrisskuldbindingar gagnvart ráðherrum væru lækkuð um 60 prósent.

Pétur Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði breytingatillögu stjórnarandstöðunnar fela í sér að að æðstu ráðamönnum yrðu tryggð sérréttindi opinberra starfsmanna, umfram lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði og lagði sjálfur til að þingmönnum yrði gert að vera í almennu lífeyrissjóðunum. Siv Friðleifsdóttir ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokkskins vildi hins vegar að þingmenn fengju sömu kjör og aðrir opinberir starfsmenn.

Eftirlaunafrumvarpið verður væntanlega að lögum seinna í dag þegar það kemur til lokaumræðu á Alþingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×