Innlent

Býst við uppstokkun á fjármálamarkaði

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde.

Forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi fyrir stundu að hagsmunir þjóðarinnar eru ríkari en hagsmunir einstakra bankastofnanna. Hann sagði að alþjóðleg fjármálakreppa væri farin að segja til sín að fullri alvöru á Íslandi og að bankarnir væru fórnarlömb ytri aðstæðna.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um aðgerð ríkisstjórnar um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Samkvæmt því fær Fjármálaeftirlitið víðtækar heimildir til þess að hafa afskipti af fjármálafyrirtækjum.

Aðspurður til hvaða aðgerða verði gripið í fyrstu þegar frumvarpið hefur verið samþykkt sagði Geir að Fjármálaeftirlitið verði að meta hvað verði gert og þá í hvaða röð.

Geir vildi ekki fullyrða neitt um sameiningu bankastofnanna. Hann sagðist búast við einhverri uppstokkun en með hvaða hætti væri erfitt að fullyrða um á þessari stundu.

Geir sagðist viðurkenna fúslega að það væru ekki eftirsóknarverð spor að standa í að þurfa að tilkynna þjóðinni um það ástand sem upp er komið. ,,Ríkisstjórnin og aðrir sem hafa komið að málinu hafa eingöngu hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi jafnvel þótt grípa þurfi til harkalegra aðgerða," sagði Geir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×