Innlent

Segir almenning vilja Vilhjálm út og Hönnu Birnu inn

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar

Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur segir að ljóst sé að það sé krafa almennings að ,,bundinn verði endi á leiðtogakreppuna í Sjálfstæðisflokknum" og að ,,Vilhjálmur fari út og Hanna Birna taki við." Þetta komi skýrt fram í skoðanakönnum sem gerð var fyrir Capacent.

Í skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Stöð 2 og var birt sl. sunnudag kom fram að þegar spurt var: ,,Hvern finnst þér að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að velja sem næsta borgarstjóra Reykjavíkur?" að Hanna Birna Kristjánsdóttir naut rúmlega 57% stuðning, Gísli Marteinn Baldursson 11% og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 5%.

Staða Vilhjálms er veik og það vekur athygli Einars að ,,leiðtogi andstæðinganna njóta meira fylgis en Vilhjálmur" en samkvæmt skoðanakönnuninni svöruðu 8% aðspurðra að þau vildu að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, tæki við sem næsti borgarstjóri Reykjavíkur fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Einar segir stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ,,afskaplega erfiða" og það hljóti að vera mikið áfall fyrir flokkinn að vera kominn niður fyrir 30% í könnun. Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki annað en tekið ,,skilaboðin frá almenningi mjög alvarlega og bundið enda á þessa leiðtogakreppu." Einar bendir jafnframt á að þegar einhver ákvörðun hafi verið tekin þurfi Sjálfstæðisflokkurinn tíma til að jafna sig. Því lengri sem sá tími er því betra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×