Dópið í húsbíl Hollendingsins, sem var handtekinn í Norrænu í síðustu viku, fannst eftir að maðurinn vísaði á það. Fram að því hafði tollgæslan leitað án árangurs klukkutímum saman og nánast gefið leitina upp á bátinn.
Samkvæmt heimildum Vísis hafði Tollgæslan á Seyðisfirði leitað í húsbílnum í tæpa níu tíma. Leitin hófst þegar vísbendingar bárust frá fíkniefnahundi um hádegið en um kvöldið hafði tollgæslan ekki fundið neitt.
Á meðan leit stóð yfir sat Hollendingurinn í varðhaldi. Samkvæmt heimildum Vísis var það hann sjálfur sem játaði að dópið væri falið í bílnum þegar komið var fram á kvöld. Tollgæslan fór eftir ábendingum Hollendingsins og fann dópið.
Vísir hafði samband við Tollgæsluna á Seyðisfirði sem neitaði alfarið að tjá sig um málið og bar við fréttabanni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hörður Jóhannesson, sem sér um samskipti við fjölmiðla vegna rannsóknarinnar, vildi ekkert tjá sig um rannsóknina eða fullyrðingar heimildarmanns Vísis um dópfundinn.
Hátt í 200 kíló af hassi fundust í bíl Hollendingsins auk eins kílós af kókaíni og eins og hálfs kíló af maríújana. Hollendingurinn situr nú í gæsluvarðhaldi.