Innlent

Rafbyssur gætu komið í veg fyrir átök

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan beitti piparúða og varnarskjöldum í fyrradag.
Lögreglan beitti piparúða og varnarskjöldum í fyrradag. Mynd/ Stöð 2

„Lögreglan hefur engan áhuga á því að standa í slagsmálum við fólk sem er að mótmæla," segir Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landsambands lögreglumanna.

Steinar segir að forystumönnum Landssambandsins þyki mjög miður þeir atburðir sem hafi komið upp á Suðurlandsvegi í fyrradag og við Kirkjusand í gær. „Það er hins vegar alveg á hreinu að lögreglan hefur lögbundnu hlutverki að gegna að halda uppi lögum og reglu og þegar lögreglan er búin að gefa fyrirmæli þá ber að fara eftir þeim," segir Steinar.

Steinar segir þó að atburðir undanfarna daga hafi ekki áhrif á þá umræðu sem átt hefur sér stað um valdbeitingatæki lögreglunnar. Landsamband lögreglumanna hefur kallað eftir heimild til þess að nota rafbyssur og Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur nefnt þann möguleika að lögreglumenn noti hunda sem valdbeitingartæki.

Steinar segir skýrar reglur gilda um það hvenær sé hægt að beita valdbeitingartækjum. „Það er óhætt að segja að taserinn sé tæki til að forðast það að lenda í átökum," segir Steinar. Hann telur að rafbyssur geti verið til verndar lögreglunni og þeim sem lögreglan hefur afskipti af, en tekur þó fram að ómögulegt sé að segja til um hvort hlutirnir hefðu þróast með öðruvísi hætti undanfarna dag ef að lögreglan hefði verið með rafbyssur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×