Erlent

Vörubílamótmæli í Lundúnum

Búist er við að um eitt þúsund vöruflutningabílar muni teppa umferð í Lundúnum nú síðdegis til að mótmæla hækkandi olíuverði. Á sama tíma hvetur Frakklandsforseti til þess að Evrópusambandið lækki virðisaukaskatt á bensíni.

Í morgun mátti sjá hundruð vörubíla á leið til Lundúna. Þeir ætla að aka niður í miðborg og teppa þar umferð, líkt og íslenskir starfsbræður þeirra hafa gert, til þess að mótmæla hækkandi olíuverði. Vörubílstjórar í Bretlandi segja að verðhækkanir á olíu séu að ganga af atvinnugreininni dauðri. Dísilolían kostar í Bretlandi um 180 krónur á lítrann sem er svipað eða ívið hærra en hann kostar á Íslandi.

Sarkozy Frakklandsforseti tilkynnti í morgun að hann hygðist leggja það til við önnur ríki Evrópusambandið að virðisaukaskattur yrði lækkaður á bifreiðaeldsneyti. Þar sem virðisaukaskatturinn er ákveðinn af Evrópusambandinu yrði ákvörðun um lækkun hans að vera tekin sameiginlega af aðildarríkjum sambandsins.

Sarkozy sagði í viðtali að ef eldsneytisverð héldi áfram að hækka þá væri líklega rétt að lækka vaskinn. Í Frakklandi er líka búið að mótmæla hækkandi olíuverði, en þar voru það sjómenn sem stóðu fyrir mótmælunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×