Erlent

McCain boðar breytingar

John McCain þáði í gærkvöldi útnefningu repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum sem frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum í nóvember. Þó að hann myndi sem forseti taka við af öðrum repúblikana, þá lagði hann áherslu á breytingar sem þyrfti að gera í Bandaríkjunum.

John McCain var vel tekið í St. Paul í Minnesota fylki í Bandaríkjunum í gærkvöldi þar sem hann fór yfir málefnin fyrir kosningarnar í nóvember. Hann minnti líka á að hann hefði verið í fangelsi í Víetnam í sex ár og sagðist hafa fallið fyrir eigin landi á meðan hann var fangi í öðru.

Repúblikanar hafa óspart borið McCain og reynslu hans úr stríði við meint reynsluleysi andstæðing hans, Baracks Obama, sem þeir útmála sem vanbúinn til leiðtogastarfa þó að hann haldi góðar ræður.

En McCain þótti sjálfur halda ágæta ræðu í gærkvöldi. Þó að hann tæki við af samflokksmanni, verði hann kjörinn, þá sagðist hann mundu leggja áherslu á breytingar, væntanlega þá frá því sem nú er.

Þúsundir repúblikana á landsfundinum og milljónir þeirra sem fylgdust með í sjónvarpi gerðu líka góðan róm að sigurvissu hans í gærkvöldi. McCain sagði engan vafa á því að repúblikanar myndu vinna forsetakosningarnar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×