Erlent

Hæsta byggingin hækkar um nokkra metra

MYND/AP

Hæsta bygging heims hefur hækkað um nokkra metra í viðbót en búist er við að framkvæmdum við hana ljúki í september 2009.

Turninn í Dubai, sem þegar er orðinn hæsta bygging heims, hefur nú náð 688 metra hæð og telur einar 160 hæðir. Bygging turnsins, sem gengur undir nafninu Burj Dubai, hófst árið 2004 og vorið 2007 skaut hann 101-turninum í Taipei í Taívan ref fyrir rass en sá hafði fram að því verið hæsta bygging heims, 512 metrar.

Það var svo í apríl á þessu ári sem Dubai-turninn náði því að verða hæsta mannvirki heims með því að skjótast fram úr KVLY-sjónvarpsmastrinu í Bandaríkjunum en það gnæfir 629 metra upp í loftið.

Endanlegri hæð turnsins í Dubai er haldið algjörlega leyndri þótt vinsælt sé að giska á að hún verði 900 metrar. Ætlunin var að ljúka við turninn fyrir áramót en menn sjá nú fram á að framkvæmdir dragist fram á haust 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×