Erlent

NATO: Deilendur hverfi aftur til stöðunnar fyrir átökin

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO.
Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO.

Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, segir að deilendur í málefnum Suður-Ossetíu og Abkasíu þyrftu að hverfa aftur til stöðunnar eins og hún var 6. ágúst.

Fundur var hjá Atlantshafsbandalaginu í Brussel í dag þar sem átök Rússa og Georgíumanna voru rædd. Eftir þann fund lét Scheffer einnig hafa eftir sér að NATO-þjóðirnar legðu mikla áherslu á að Rússar viðurkenndu fullveldi Georgíu en Rússar hafa sótt inn á georískt landssvæði síðustu daga.

Fyrr í dag greindi Dmítrí Medvedev Rússlandsforseti frá því að Rússar hefðu stöðvað hernaðaraðgerðir sínar í Georgíu eftir að hafa tryggt öryggi Rússa í Suður-Ossetíu. Fregnir berast hins vegar enn af átökum uppreisnarmanna í Abkasíu en þeir takast þar á við Georgíuher.

Vilja að Suður-Ossetía verði hluti af Rússlandi

Við þetta má bæta að nærri helmingur Rússa vill að Suður-Ossetía verði hluti af Rússlandi en héraðið heyrir nú undir Georgíu. Þetta sýnir skoðanakönnun sem gerð var í Rússland. Þá vill þriðjungur að Suður-Ossetía verði sjálfstætt ríki og einungis fjögur prósent vilja að héraðið tilheyri áfram Georgíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×