Innlent

Sviðsetning á ráni, innbrot í fjóra skóla og fíkniefnabrot

Jóhanna Sigþórsdóttir skrifar
Einn þeirrra skóla sem brotist var inn í. Skjávarpa var stolið.
Einn þeirrra skóla sem brotist var inn í. Skjávarpa var stolið.
Þrír piltar innan við tvítugt hafa verið dæmdir, skilorðsbundið, í fangelsi fyrir fíkniefnabrot, húsbrot, þjófnaða og fleiri brot. Ákvörðun um refsingu fjórða piltsins sem fékk dóm, var frestað.

Þremur piltanna var gefið að sök að hafa farið í heimildarleysi inn í einbýlishús í Garðabæ, dvalið þar um stund og gert sig heimakomna. Hinum fjórða var gefið að sök innbrot í tvo bíla. Úr öðrum þeirra stal hann greiðslukorti.

Piltarnir brutust síðan inn í samtals fjóra skóla, þar sem þeir stálu ýmsum tækjum. Jafnframt var ákært fyrir innbrot í íbúð í Blönduhlíð, svo og vörslur á ríflega einu grammi af amfetamíni.

Loks var einn piltanna ákærður fyrir að sviðsetja rán í Sunnubúð í Reykjavík, ásamt félaga sínum sem þá starfaði þar við afgreiðslustörf.

Sá piltanna sem þyngstan dóminn hlaut var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Annar var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, og hinn þriðji í tveggja mánaða fangelsi, hvort tveggja skilorðsbundið. Yngstu piltarnir voru fimmtán og sextán ára þegar þeir brutu af sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×