Erlent

Sádar hafa milligöngu um friðarviðræður í Afganistan

Adullah, konungur Sádi-Arabíu.
Adullah, konungur Sádi-Arabíu.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu höfðu milligöngu um viðræður milli afganskra stjórnvalda og talibana fyrir skemmstu og reiknað er með að framhald verði á viðræðunum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Fréttastöðin hefur eftir heimildarmanni sem tengist viðræðunum að þær hafi farið fram í lok september og var það sjálfur Abdullah konungur Sádi-Arabíu sem stjórnaði þeim. Eins og kunnugt er hafa talibanar í samvinnu við al-Qaida staðið fyrir blóðugri baráttu í Afganistan allt frá því að þeim var komið frá völdum með innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra árið 2001.

Sádar hafa hingað til átt samskipti við Afgana í gegnum Pakistana en sérfræðingar segja að með þessu séu sádiarabísk yfirvöld að átta sig á því hversu veik staða Pakistans er um þessar mundir. Þá er með þessum viðræðum ætlunin að stemma stigu við vexti al-Qaida hryðjuverkasamtakanna.

Viðræður talibana og afganskra stjórnvalda fóru fram í hinni helgu borg Mekka. Þess er getið að Mullah Omar, leiðtogi talibana, hafi ekki sótt fundinn en fulltrúar hans greindu frá því að hann væri ekki í neinum tengslum við al-Qaida lengur.

Deilendur komust að því á fundinum að ekki yrði ráðin bót á ástandinu í Afganistan með öðru en viðræðum og hafa því fallist á að halda áfram að ræða saman. Sádi-Arabía var eitt þriggja landa í heiminum sem viðurkenndi stjórn talibana í Afganistan en samband landanna stirðnaði þegar Mullah Omar neitaði að handsama Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaida.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×