Viðskipti innlent

Buðu 120 milljarða í slóvenska símann

MYND/Róbert

Tilboð Skipta í slóvenska símann hljóðaði upp á 400 evrur á hlut eða 120 milljarða íslenska króna. Þetta sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, í samtali við Markaðinn skömmu fyrir hádegi.

Fram kom fyrr í dag að ríkisstjórn Slóveníu hefði hætt við sölu á símafyrirtækinu Telekom Slovenije vegna þess að að hvorugt þeirra tilboða sem bárust þótti nógu hagstætt.

Til stóð að selja tæplega helmingshlut í Telekom Slovenije og var Skipti, móðurfélag Símans, annar tveggja bjóðenda sem kepptu á lokasprettinum um félagið. Keppinautur Skipta var Bain Capital, Axos Capital og BT, og áttu bjóðendurnir tveir að senda endurskoðuð tilboð á föstudag.

Eftir því sem næst verður komist endurskoðuðu báðir tilboð sín. Slóvenska einkavæðingarnefndin segir hins vegar að tilboðin séu ekki fullnægjandi, og því sé einkavæðingunni frestað. Brynjólfur sagðist í samtali við Markaðinn hafa orðið fyrir vonbrigðum að tilboði fyrirtækisins hefði ekki verið tekið.

Í tilkynningu frá Skiptum er enn fremur haft eftir Brynjólfi að forráðamenn fyrirtækisins hafi verið búnir að fara ítarlega yfir alla þætti þessa máls undanfarnar vikur með einkavæðingarnefnd slóvenska ríkisins og ráðgjöfum þess og fyrir nefndinni hafi legið tilboð frá Skiptum.

Skipti skráð á markað í mars

„Það er ákvörðun nefndarinnar að selja ekki og við virðum þá ákvörðun. Það var okkar skoðun að kaupin á Telekom Slovenije og samstarf þess við Skipti hefðu getað orðið báðum félögum til hagsbóta og skapað verðmæti fyrir hluthafa beggja félaga.

Þrátt fyrir að viðræðum um kaup á Telekom Slovenije sé lokið er ljóst að Skipti eru vel í stakk búin fyrir vöxt utan Íslands. Við höfum á undanförnum misserum keypt félög með starfsemi í Bretlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð og innan fyrirtækisins býr mikil þekking sem við munum nýta til frekari vaxtar á komandi misserum. Framundan eru spennandi tímar, skráning Skipta í Kauphöll er vel á veg komin og stefnt er að skráningu nú í mars," segir Brynjólfur.

Til stóð að skrá Skipti á hlutabréfamarkað hér á landi fyrir áramót en því var frestað fram í mars vegna viðræðna um kaup á slóvenska símanum.



 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×