Innlent

Engin svör fást um hversvegna Ísland var haft útundan

Bandaríski seðlabankinn taldi ekki ástæðu til að hafa Seðlabanka Íslands með þegar gerðir voru gjaldmiðlaskiptasamningar við seðlabanka allra hinna Norðurlandanna. Engin skýring fæst hversvegna Ísland var haft útundan.

Fréttir fyrr í vikunni, um að seðlabankar hinna Norðurlandanna fjögurra hefðu allir gert tvíhliða gjaldmiðlasamning við bandaríska seðlabankann, vöktu spurningar um hversvegna íslenski Seðlabankinn hefði ekki fylgt með. Hefur gengislækkun íslensku krónunnar undanfarna daga meðal annars verið rakin til þessa og efnahagsspekingar spurt hvort verið gæti að Seðlabanki Íslands hafi ekki séð ástæðu til að styðja við íslensku krónuna með slíkum samningi. Seðlabanki Íslands sá sig nú síðdegis knúinn til að senda út yfirlýsingu þar sem hann segist hafa átt viðræður við Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum vikum. Ekki hafi verið taldar ástæður eða efni til þess að gera á þessu stigi samning við Seðlabanka Íslands. Þótt þessi tilkynning bankans sé óljós um hver hafi ekki viljað gera samningin fengust þær skýringar úr bankanum síðdegis að það hafi verið seðlabanki Bandaríkjanna sem ekki vildi hafa Ísland með.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra kvaðst nú síðdegis vilja sem minnst tjá sig um það sem Seðlabankinn væri að gera. Hann væri örugglega að gera það sem hann teldi best. Hann kvaðst hafa rætt þetta mál lítillega við seðlabankamenn en vildi ekki tjá sig um þau samskipti. Spurður hvort það væri ekki óþægilegt fyrir Ísland að það skyldi ekki hafa verið haft með sagði Árni að það þyrfti ekki að vera. Spurður um hversvegna Bandaríkin vildu ekki hafa Ísland með svaraði Árni með því að hann vildi ekki tjá sig frekar um þetta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×