Viðskipti innlent

Íslendingar kaupa 11 eignir í hjarta Kaupmannahafnar

Fasteignafélagið Property Group hefur keypt 11 eignir af Oskar Jensen Group í hjarta Kaupmannahafnar eða milli Strikisins og Vestergade. Property Group er að meirihluta í eigu Íslendinga.

Kaupverðið er 2,5 milljarðar dkr. eða sem nemur tæpum 34 milljörðum kr. Íslendingar eiga 62,5% í Property Group en þar eru á ferð Straumur ásamt þeim Guðmundi Þórðarsyni og Birgi Bieltvedt. Danirnir sem eiga félagið á móti eru m.a. Henrik Mikkelsen, Jesper Damborg og Claus Klostermann.

Fjallað er um kaupin í viðskiptablaðinu Börsen í dag. Þar kemur fram að fjármagn til kaupanna hafi ekki verið sótt til íslenskra banka en um er að ræða ein umfangsmestu fasteignakaup í Danmörku í nokkurn tíma.

Ætlunin er að endurbyggja þessar eigur og koma þar upp veitingahúsum, búðum og garðsvæðum. Jesper Damborg segir í samtali við Börsen að þegar endurbyggingunni ljúki muni Kaupmannahöfn hafa stigið stórt skref í áttina að því að verða ein fremst borg Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×