Erlent

Átök einnig hafin í Abkasíu

Átökin í Georgíu virðast nú vera að breiðast út en nýjustu fregnir hermað að herflugvélar hafi gert sprengjuárásir á landamærum Georgíu og Abkasíu. Abkasía er, líkt og Suður-Ossetía, sjálfstjórnarsvæði innan landamæra Georgíu sem lýst hefur yfir sjálfstæði.

Talsmaður stjórnvalda í Abkasíu sem er hliðhollur stjórnvöldum í Georgíu segir að um rússneskar herþotur hafi verið að ræða en fréttastofa Reuters greinir frá því að uppreisnarmenn í Abkasíu hafi lýst árásunum á hendur sér. Rússar hafa stutt Abkasíu líkt og Suður-Ossetíu í sjálfstæðisbaráttu þeirra.

Mikheil Saakashvili krafðist þess í morgun að vopnahléi yrði komið á í Suður-Ossetíu og sagði að Rússar hefðu hafið allsherjar innrás í Georgíu. Þá hefur öryggisráð Georgíu lýst því yfir að stjórnvöld í landinu muni hugsanlega biðla til alþjóða samfélagsins um hernaðaraðstoð vegna átakanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×