Innlent

Ekki útlit fyrir stórt hlaup

Hlaupið í Skaftá vex hægt og ekki er talið útlit fyrir að það verði stórt að þessu sinni. Fólki er þó ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum árinnar vegna brennisteinsmengunar.

Rennsli árinnar við Sveinstind mælist nú um 300 rúmmetrar á sekúndu. Þar er meðalrennsli í kringum fimmtíu rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar má geta þess að í Skaftárhlaupinu í ágúst 2005 var rennsli árinnar um fjórtán hundruð rúmmetrar á sekúndu þegar mest var.

Upprunastaður Skaftárhlaupa er undir Vatnajökli norðvestur af Grímsvötnum. Þar eru tvö jarðhitasvæði sem bræða jökulinn án afláts, en vatnið sleppur ekki burt vegna þess að þar er lægð í yfirborð jökulsins. Þessar lægðir eru kallaðar Skaftárkatlar. Að jafnaði hafa liðið rúm tvö ár milli hlaupa úr hvorum katli.

Stórt hlaup kom úr Eystri-Skaftárkatli í april í fyrra og annað smærra í september.

Í hlaupinu nú líkt og áður má finna lykt af brennisteinsvetni eða svokallaða jöklafýlu. Dæmi eru um að lyktin hafi borist til Færeyja í miklum Skaftárhlaupum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×