Erlent

Pakkaferðir til sölu á eBay

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Flugfélag í New York hefur snúið vörn í sókn í kreppunni og býður nú upp 300 flugferðir á uppboðsvefnum eBay. Það er flugfélagið JetBlue sem vekur athygli á sér á þennan nýstárlega hátt og býður nú bæði einstakar flugferðir og pakkaferðir upp á vefnum eBay.

Upphafsverð ferðanna er yfirleitt fremur hóflegt, innan við eitt hundrað íslenskar krónur, en markaðsdeild JetBlue segist eiga von á því að þegar upp er staðið seljist flestar ferðirnar á 85 - 90 prósent af listaverði.

Allt er þetta auðvitað spurning um að vekja athygli á flugfélaginu á samkeppnisvígvellinum sem verður óárennilegri nánast með hverjum deginum sem líður en flugfélög um gervalla heimsbyggðina eiga í vök að verjast fyrir rándýru eldsneyti og minnkandi sölu vegna aukins aðhalds og sparnaðar almennings sem sér fram á rýrari kjör en oft áður. Að sjálfsögðu eru flugvallarskattar ekki innifaldir í söluverðinu á eBay.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×