Erlent

Palin sakar Obama um að vingast við hryðjuverkamenn

Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna því Sarah Palin, varaforsetaefni repúbilkana, sakaði í dag Barack Obama, forsetaefni demókrata, um að vingast við hryðjuverkamenn sem beindu spjótum sínum að eigin landi.

Ástæðan er sú að bandaríska stórblaðið New York Times greindi frá því að Obama hefði nokkrum sinnum hitt Bill Ayers, rótttækling sem fór fyrir samtökunum Weather Underground, sem barðist gegn stríðsrekstri á áttunda áratugnum meðal annars með sprengjutilræðum við Pentagon og bandaríska þinghúsið. Obama og Ayers munu búa í sama hverfi en eftir því sem New York Times segir eru þeir ekki nánir og þá hefur Obama aldrei lýst yfir stuðningi við aðgerðir Ayers. Í sama streng taka fleiri stórblöð í Bandaríkjunum.

Engu að síður virðast repúblikanar ætla að láta sverfa til stáls nú þegar mánuður er til kosninga. Í yfirlýsingu í dag sakaði Palin Obama um að vingast við hryðjuverkamenn sem beindu spjótum sínum að eigin landi. Talsmaður Obama sagði yfirlýsinguna hins vegar meiðandi en að hún kæmi ekki á óvart í ljósi yfirlýsinga úr herbúðum repúblikana um að þeir myndu beita árásum á Obama. Það væri gert til þess að draga athyglina frá efnahagsvandræðunum sem rekja mætti til stjórnunar repúblikana. Skoðanakannanir sýna að Obama hefur töluvert forskot á McCain í skoðanakönnunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×